135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

fjárveitingar til þjóðlegra greina við Háskóla Íslands.

465. mál
[15:15]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Já, það er gott að það er margt undir sólinni og ákveðnir hlutir sem ekki breytast, t.d. virðist ekki breytast að hv. þingmaður skilji svör mín. Ég tel mig engu að síður hafa svarað nákvæmlega því sem lagt var fyrir mig og ég ítreka sérstaklega að við leituðum eftir þessum upplýsingum við Háskóla Íslands þar sem staðfest var að umræddar 40 milljónir, sem skipta okkur miklu máli, renna nákvæmlega í þessar þjóðlegu greinar. Þjóðlegu greinarnar voru m.a. tilgreindar í fjárveitingunni fyrir árið 2007 sem Háskóli Íslands fer síðan eftir.

Það dylst hins vegar engum að meginmarkmið mitt og þeirra sem samþykktu fjárveitinguna er — og ég efast ekki um að hv. þingmaður hafi einmitt greitt atkvæði með fjárveitingunni á þeirri forsendu að féð ætti að fara til þjóðlegu greinanna — fyrst og fremst að byggja og efla íslenska tungu, íslensk fræði og málvísindi. Það er því engin tilviljun að við settum þetta ákvæði inn í samninginn, það er einmitt til þess að fylgja eftir tilteknum markmiðum sem við settum það í lög, sem er reyndar sérstakt tilfelli sem við stóðum frammi fyrir á sínum tíma, en við setjum það í þennan stóra og mikla rannsóknarsamning sem við gerðum við Háskóla Íslands af því að Háskóli Íslands hefur merkilegu hlutverki að gegna í íslensku samfélagi og hann hefur meiri ábyrgð og meiri skyldur gagnvart samfélaginu og sérstaklega þegar kemur að ræktun tungunnar og eflingu hennar og menningararfs okkar.

Það er því alveg tvímælalaust þannig að við erum að styðja við þessar greinar og við munum fylgja því eftir, sérstaklega þar sem það var ríkur vilji Alþingis til þess að styðja við nákvæmlega þessa þætti.