135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[15:57]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti.

(Forseti (MS): Forseti biður þingmenn að gefa hljóð í salnum.)

Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér er og sérstaklega vil ég þakka hv. þm. Gunnari Svavarssyni fyrir einkar skemmtilegt innlegg. Ég get aftur á móti ekki tekið undir að æskilegt sé að við tölum niður til sérfræðiþekkingar þingmanna. Sjálfur ber ég mikla virðingu fyrir sérfræðiþekkingu ýmissa þingmanna á ýmsum málum og þar á meðal virði ég þekkingu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar á sjávarútvegsmálum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að þjóðin hafi traust á þeim rannsóknum sem eru á lífríki í hafinu og það er brotalöm í því trausti. Í tillögum sem við framsóknarmenn lögðum fram á síðasta ári varðandi mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar lögðum við einmitt til að veitt yrði aukið fé til hafrannsókna og þá einkanlega að gert yrði ráð fyrir því að að mati á þessum rannsóknum kæmu útvegsmenn, sjómenn og vísindamenn saman í fagráði.

Við verðum að fara einhverjar slíkar leiðir. Ég hef ekki sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Með frammíköllum í salnum hefur verið spurt hvort menn hafi migið í saltan sjó, það hef ég ekki gert. Ég hef ekki þá þekkingu sem margir hér inni búa yfir á sjávarútvegsmálum.

Ég geri mér hins vegar fullkomlega grein fyrir að við þurfum að leggja meira í hafrannsóknir. Við þurfum að ná trausti sjómanna á rannsóknunum. Ég kalla líka eftir því, sem mjög hefur vantað, að ríkisstjórnin standi við fyrirheit um endurmat á mótvægisaðgerðum vegna aflabrestsins. Það er greinilegt að (Forseti hringir.) mörg byggðarlög fara mjög illa út úr þessum aðstæðum og við framsóknarmenn lögðum upphaflega til að ekki yrði gengið jafnlangt og gert er.