135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[15:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Menn búa auðvitað að lífsreynslu sinni og ekki ætla ég þingmönnum, sem eru vel gefnir, það að gera lítið úr því að menn læri svo lengi sem þeir lifa. Hér í salnum eru þrír skipstjórnarmenn að mér meðtöldum sem hafa stundað fiskveiðar í áratugi og margir hafa komið á sjó, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson o.fl., og stundað fiskveiðar. Við drögum lærdóm af því sem við höfum lifað og þeirri þekkingu sem við höfum aflað okkur.

Það er einfaldlega þannig, hæstv. forseti, að langflestir sem stunda fiskveiðar og ég tala við — og ég vænti þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra eigi einhverja trúnaðarvini sem segja honum satt, sem hringja í hann annað slagið og segja honum hvað er að gerast, sem segja frá því, þótt þeir vilji ekki láta nafns síns getið á opinberum vettvangi, að þeir hafi verið beðnir um að velja allan fisk undir tveim kílóum úr aflanum. Ég vænti þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra viti hvað er á ferðinni og átti sig á því hvað verður á ferðinni á næstu vikum og mánuðum.

Þess vegna vil ég ræða það að farið verði í endurmat á stærð þorskstofnsins og endurmeta hann á raunverulegum veiðum til þess að reyna að átta okkur á því hvort við getum ekki aukið þorskaflann eitthvað og komið þannig í veg fyrir sóun verðmæta — geysilega sóun verðmæta sem einnig þýðir að engin uppbygging á sér stað með niðurskurði á þorskaflanum eins og við stöndum frammi fyrir núna. Þetta er staðreynd máls og ég trúi því ekki að svo illa sé komið fyrir sjávarútvegsráðherra að hann eigi enga trúnaðarvini í röðum sjómanna.