135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[16:02]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er svo lánsamur að ég á mjög marga trúnaðarvini í hópi sjómanna og útgerðarmanna og það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, ég held að það sé skoðun mjög margra þeirra að meira sé af þorski í sjónum og meira af fiski í sjónum en vísindamenn okkar telja.

Út af fyrir sig er það ánægjulegt. Þá fyrst væri ástæða til að hafa alvarlegar áhyggjur ef það væri skoðun sjómanna að staða fiskstofnanna væri verri en Hafrannsóknastofnun er að mæla. Út af fyrir sig er það heilmikil viðurkenning á því sem við höfum verið að gera á undanförnum árum, sú skoðun sem hv. þingmaður hefur haldið fram, um það að staða þorskstofnsins sé betri en Hafrannsóknastofnun mælir. Það út af fyrir sig ætti að vera okkur heilmikil örvun vegna þess að hv. þingmaður er einhver reyndasti skipstjórnarmaður og fiskimaður sem við vitum um.

En ég vil hins vegar mótmæla því sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson sagði um Hafrannsóknastofnun. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því sem þar er verið að gera og það er fyllilega eðlilegt að menn gagnrýni það. En að kalla þá vísindamenn sem þar starfa — menn sem hafa margra ára nám að baki, menn sem hafa starfað með sjómönnum árum og áratugum saman — þykjustuvísindamenn sæmir ekki einu sinni hv. þm. Grétari Mar Jónssyni. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Þetta er honum til rækilegrar skammar og ég vonast til þess að hann verði maður til þess að draga þessi orð sín til baka.

Hv. þingmaður sagði að ég væri varðhundur Hafrannsóknastofnunar. Ég hef nú heyrt þessa orðaleppa frá honum áður. En tökum nú þessa ákvörðun mína um hámarksþorskafla. Ákvörðun mín var 130.000 tonn. LÍÚ lagði til 150.000 eða 160.000 tonn. Hv. þingmaður flutti hér tillögu í þinginu um 170.000 tonn.

Það er nú bara þannig að hv. þm. Grétar Mar Jónsson og LÍÚ eru greinilega miklu meira sammála í þessum efnum heldur en ég. Er þá hv. þingmaður orðinn varðhundur LÍÚ? Er það vegna þess að LÍÚ lagði til 160.000 tonn að hann fór hér fram í þinginu og lagði til 170.000 tonn? Ég er ekkert að ætla honum það út af fyrir sig þó ég viti að hann mundi sjálfur draga þessa ályktun.

Ég vil vekja athygli á því að við höfum verið að fara í gegnum þetta togararall. Það er búið að gjörbreyta því. Það er búið að styrkja það. Það er búið að leggja í það stóraukið fé. Og það ætti þess vegna að leiða til þess (Forseti hringir.) að við værum með öruggari mælingu á þorskstofninum. Er það ekki það sem þetta mál allt saman snýst um? (GMJ: En önnur veiðarfæri?)