135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

tilhögun þingfundar.

[10:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætlaði að vekja athygli á því að í dag er auglýst samgönguþing sem er skipulagt með löngum fyrirvara. Þar eru mörg áhugaverð erindi um samgöngur og byggðaþróun og að mínu mati mikilvægt fyrir þingmenn að þeir geti tekið þátt í slíkum viðburði, hlustað á það sem þar er til umfjöllunar, tekið þátt í umræðum og skoðanaskiptum, ekki síst á því málasviði sem menn eru sérstaklega að vinna að. Það er því bagalegt að einmitt á þessum degi, á sama degi og árlegt samgönguþing er skipulagt, skuli dagskrá þingsins vera skipulögð með þeim hætti að samgönguráðherra sé að mæla fyrir ekki færri en sex þingmálum. Þannig er óhægt um vik fyrir þingmenn, ekki síst fyrir þá sem sitja í samgöngunefnd, að taka þátt í samgönguþingi. Mér finnst það sérkennilegt ráðslag. Fyrr í vetur var umræða um það að setja ekki þingfund ofan í umhverfisþing og þó ekki sé ætlast til að þingfundur sé felldur niður hefði mátt sníða dagskrá þingfundar þannig að nákvæmlega þessi mál rækjust ekki á.

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á þessu og mér finnst þetta mjög bagalegt.