135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

frumvarp um matvæli.

[10:42]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur heimilað staðfestingu á viðaukum á bókunum EES-samningsins. Þar er um að ræða viðauka I og hins vegar upptöku löggjafar Evrópusambandsins um matvæli og fóður. Þetta var staðfest 26. október sl. með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Þegar þessi vegferð hófst árið 2005 var það álit uppi að áhrifin á íslenskan landbúnað, á kjötiðnað, yrðu ekki mikil þar sem þetta snerti ekki tolla og tollvernd. Það yrðu áhrif VTO-samninga sem mundu fyrst og fremst auka samkeppni að utan á kjöt- og mjólkurvörumarkaði. Nú fullyrða hagsmunaaðilar landbúnaðarins, bæði mjólkur- og kjötiðnaðarins, að þessi matvælalög Evrópusambandsins muni dauðrota og eyðileggja íslenskar kjötvinnslur. Á íslenska kjötmarkaðnum framleiða íslenskir bændur í dag 25 þús. tonn en innflutningur á lægri tollum hefur numið 3–4% eða 700–800 tonnum. Nú er fullyrt að afleiðingar verði þær að innflutningur á kjöti kunni að aukast um 6–7 þús. tonn, fari í 25–30% af neyslunni. Þetta varðar störf þúsunda manna á Íslandi.

Enn fremur fullyrða þeir að fæðuöryggi verði ógnað. Hér verði sýkingar vegna sjúkdóma tíðari. Sé þetta rétt er öllum íslenskum landbúnaði ógnað og neytendum um leið. Þessi óvissa umræða er ekki boðleg og því ber Alþingi skylda til að afgreiða ekki frumvarp hæstv. ráðherra á þessu þingi og skoða aðstæður og áhrif löggjafarinnar vel. Ég vil í fyrsta lagi mælast til þess við hæstv. ráðherra, ríkisstjórn og Alþingi að áhættumat fari fram um matvælaöryggi neytenda, enn fremur hvort dýraheilbrigði sé ógnað. Í öðru lagi: Mun innflutningur á hráu kjöti verða svona risavaxinn eins og afurðastöðvarnar fullyrða? Í þriðja lagi: Hverjar verða þá mótvægisaðgerðir stjórnvalda og landbúnaðarins?

Hér er skýr krafa um að íslenskur landbúnaður, sem á mjög trygga neytendur, (Forseti hringir.) fái tíma til að merkja allar íslenskar vörur með fána eða sérmerkingu bæði í verslunum og á hótelum. (Forseti hringir.) Þetta gera t.d. grænmetisbændur í dag og neytendur kunna að meta það. Ég skora á hæstv. landbúnaðarráðherra og ríkisstjórn að fara varlega í þessu (Forseti hringir.) máli og gefa okkur allan þann tíma sem við þurfum.