135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

frumvarp um matvæli.

[10:44]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Herra forseti. Eins og okkur hv. þingmanni er báðum kunnugt hefur verið farið afskaplega varlega í þessu máli. Það mál sem hér um ræðir á sér afar langa forsögu og að því hefur verið unnið árum saman og reynt að fara yfir þá þætti sem hv. þingmaður gerði m.a. að umræðuefni. Eitt af því sem var m.a. skoðað sérstaklega var þetta áhættumat sem hv. þingmaður kallaði eftir. Gert var áhættumat varðandi búfjársjúkdómana og niðurstaða þess áhættumats var sú að áhættan væri lítil eða engin.

Auðvitað geta menn aldrei fullyrt að engin áhætta felist í einhverjum viðskiptum með vörur. Við vitum t.d. að þessi innflutningur sem nú á sér stað á kjöti, á 600–800 tonnum, sem fer fram núna á grundvelli WTO og ESB-samninga — það má segja sem svo að því geti fylgt einhver áhætta. En við reynum að halda henni í lágmarki. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að við erum með mjög heilbrigða stofna og við munum tryggja það eins og mögulegt er að vernda þá áfram, og ekki verður slegið neitt af í þeim efnum. Þess vegna er m.a. svo mikilvægt að við getum afgreitt þessi lög núna til að sækja okkur þær viðbótartryggingar sem allar forsendur eru fyrir að við getum sótt okkur.

Ég var á ráðstefnu í gær sem Matís og Matvælastofnun efndu til. Þar kom fram að þróun varðandi t.d. kampýlóbakter- og salmonellusjúkdóma er svipuð hér og á Norðurlöndunum og bæði Finnar og Svíar hafa sótt sér slíkar viðbótartryggingar vegna innflutningsins og það hefur gengið vegna þessara ástæðna. En það er hins vegar alveg ljóst mál að ekki er hægt að sækja á um slíkar heimildir fyrr en fyrir liggur löggjöf Alþingis og því er svo mikilvægt að reyna að ljúka þessu núna.

Ég vil segja, virðulegi forseti, sem er kjarni málsins, að þeir valkostir sem við stöndum frammi fyrir núna eru mjög skýrir. Það liggur t.d. algerlega ljóst fyrir, og það verða menn að hafa í huga, að við eigum ekki þann kost í stöðunni að búa við óbreytt ástand. Ég veit að hv. þingmanni er það algerlega ljóst. Búið er að breyta matvælalöggjöf í Evrópu á þann veg að þessi kostur, að vera með óbreytt ástand þar sem landbúnaðurinn er undanþeginn en sjávarútvegurinn og önnur matvælastarfsemi ekki, er ekki til staðar. (Gripið fram í: Það er bara ekki rétt.)