135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

frumvarp um matvæli.

[10:47]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er eins og hæstv. ráðherra skilji ekki kjarna málsins. Það er verið að tala um að þetta geti orðið 6.000–7.000 tonn, að íslenskur landbúnaður muni rústast við þessar aðstæður. Það eru nýjar upplýsingar. Það eru mjög alvarlegar upplýsingar fyrir Alþingi Íslendinga, fyrir landbúnaðinn og fyrir neytendur á Íslandi sem þykir vænt um landbúnað sinn. Það er það sem ég er að tala um. Enn er Alþingi Íslendinga í okkar huga æðra en Evrópusambandið eða ESA. Sjávarútvegurinn mun standa með landbúnaðinum í þessu, það er ekki verið að ógna honum. Ég er aðeins að fara fram á að við fáum þann tíma sem við þurfum. Gangi þessar vondu spár eftir þá skulum við gera okkur grein fyrir því að það er verið að rústa íslenskan landbúnað. Hann verður ekki svipur hjá sjón eftir tvö til þrjú ár. Þess vegna er mjög mikilvægt að Alþingi taki forustuna í málinu um að staldra við, gefa landbúnaðinum og afurðastöðvunum þann tíma sem þær þurfa til að fara yfir þessar fullyrðingar og þessa stöðu. Hvernig við verjum hagsmuni okkar er mjög mikilvægt við þessar aðstæður.