135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

frumvarp um matvæli.

[10:48]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er enginn ágreiningur okkar í milli eins og hv. þingmanni er ljóst, um að verja hagsmuni íslensks landbúnaðar. Það er auðvitað minn einlægi ásetningur að gera það og þannig hef ég unnið allan tímann.

Það er ekki svo að hægt sé að slá því föstu, öðru nær, að þessar ákvarðanir muni hafa þær afleiðingar í för með sér sem hv. þingmaður nefnir. Ég tel sjálfsagt að við skoðum þetta og það getum við vel gert. Við eigum ekki að slá því föstu núna þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er komin ágætlega af stað í vinnu sinni við þetta mál að við getum ekki afgreitt málið. Það eru allar forsendur fyrir því að við getum afgreitt það.

Það eru ný tíðindi, sem eru mjög undarleg, ef það er svo að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert skjól í tollverndinni í landinu. Til hvers eru menn þá að vísa? Að við eigum að verja landbúnað okkar með öðrum ráðum? Er verið að tala um það þegar fyrir liggur að áhættumatið er það sem ég sagði? Þá erum við ekki með þau tæki og tól til að verja það á grundvelli þeirra heilbrigðisskírskotana sem við höfum haft. Við verðum auðvitað að horfa til tollverndarinnar. Eða eru menn að segja að það skipti engu máli hvernig tollarnir gagnvart landbúnaðinum þróast? (Forseti hringir.) Að það sé hvort eð er ekkert skjól í þeim eins og þeir eru núna?