135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

auglýsingar sem beint er að börnum.

[11:01]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég er almennt ekki hlynnt boðum og bönnum þannig að ég mun ekki beita mér fyrir að bannað verði að sýna auglýsingar í kringum barnatímann. Ég mun hins vegar taka málið upp og ræða það við Ríkisútvarpið, m.a. á grundvelli þessa ákvæðis sem er í samningum og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„RÚV skal leitast við að taka tillit til hagsmuna barna áður en teknar eru ákvarðanir um birtingu auglýsinga þar sem auglýstar eru vörur eða þjónusta ætluð börnum.“

Ég tel til að mynda auglýsingar og auglýsingar eru ekki það sama. Eigum við t.d. að banna auglýsingar sem hvetja börn til að hreyfa sig meira? Ég tel alls ekki að svo eigi að vera þannig að við eigum að treysta því fólki sem vinnur á fjölmiðlunum og þeim sem eru forsvarsmenn fjölmiðla að leysa þetta í samvinnu við menntamálaráðuneytið og í samvinnu við foreldra. Það eru enn og aftur foreldrar sem hafa síðasta orðið varðandi það hvernig neysluvenjur barnanna eru hverju sinni.