135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

vegalög.

[11:07]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra velur enn eina ferðina að svara ekki um afstöðu sína til þessa mikilvæga máls. Þegar hann kemur hér og fer að blanda í þetta umræðu um vegalögin þá vil ég í fyrsta lagi taka fram að þetta ákvæði í vegalögum er gamalt og það kom ekki inn í þau vegalög sem hann er að tala um hér. Í öðru lagi var ég ekki fulltrúi vinstri grænna í þessari nefnd heldur fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og við fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga höfum ævinlega haft athugasemdir við nákvæmlega þetta ákvæði í vegalögunum. Það ætti ráðherrann að kynna sér þannig að (Gripið fram í.) þetta er búið að vera lengi í lögunum. Það var ekki nýtt ákvæði þar.

Þó að ráðherrann sé glöggskyggn þá getur hann ekki séð allt fyrir. Hann getur ekki vitað fyrir fram um hvað verður ágreiningur. Ágreiningurinn liggur ekki alltaf fyrir í upphafi. Hann getur komið fram á síðari stigum, t.d. á skipulagsstigi eða þegar málið er í umhverfismatsferli þannig að hér stendur ekki steinn yfir steini. Þetta er ekki venjulegur stjórnsýsluúrskurður eins og t.d. ef umhverfisráðherra fellir úrskurð vegna kærumáls varðandi skipulag eða umhverfismat. Þetta er allt annars eðlis. Þetta er bara það að ráðherrann á að höggva á hnútinn. Hann tekur ekki skipulagsvaldið af sveitarfélögunum í þessu máli. Það getur hann ekki gert, það getur hugsanlega umhverfisráðherra gert ef málið fer í kæruferli samkvæmt skipulags- og byggingarlögum (Forseti hringir.) en ekki samkvæmt því sem hér er um að ræða. Ráðherrann á auðvitað að koma hér og lýsa afstöðu sinni til málsins og svara því hvort hann sé sammála flokkssystkinum sínum.