135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

för á Ólympíuleikana í Peking.

[11:15]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns vil ég ítreka að ég væri reiðubúin til þess að gera það. En ég er fyrst og fremst þarna á vegum íþróttahreyfingar íslensku íþróttamannanna.

Varðandi það að mæta á Ólympíuleikana þá hef ég margítrekað sagt að af öllu óbreyttu munum við fara. En hins vegar er það líka þannig að við fylgjumst auðvitað gaumgæfilega vel með þróun og gangi mála.

Það er ekkert hægt að segja um hvernig málin þróast núna á næstu vikum og mánuðum. Það er ljóst í mínum huga að við förum þangað til þess að sýna íþróttamönnum okkar samstöðu en um leið þá erum við ekki að hvika frá eindreginni stefnu íslenskra stjórnvalda sem er sú að við mótmælum öllum mannréttindabrotum hvar sem þau eru framin.