135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:30]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Skollaleikur og skollaleikur. Þessi skollaleikur — og ég held að menn verði þá að fara að endurnýja inntakið í því orði — hefur leitt til þess að háskólastarfið og háskólakerfið á Íslandi blómstrar. Aldrei hafa verið fleiri háskólanemar í háskólum landsins en núna, aldrei hafa verið fleiri námsleiðir í framboði en núna. Ríkisháskólarnir sérstaklega standa styrkari fótum en nokkru sinni fyrr.

Það er algerlega rangt sem farið er með hér og verið að fleipra um í ræðustól Alþingis að ríkisháskólarnir fái minna fjármagn úr ríkissjóði en einkaháskólarnir. Það er rangt og menn skulu bara reikna það út og það þýðir ekki að taka eingöngu það sem kemur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Menn verða að taka allan heildarpakkann og heildarpakkinn inniheldur m.a. hinn mikla rannsóknarsamning sem gerður hefur verið við Háskóla Íslands, nýlegan rannsóknarsamning sem gerður var, og fagnað var af öllum þingheimi, við Háskólann á Akureyri. Af hverju? Af því að þetta eru burðugir skólar sem við eigum að halda áfram og munum halda áfram að styðja við. Þar verður engin breyting á.

Hins vegar er kjarninn sá að okkur greinir á, það er grundvallarmunur á okkar pólitík, míns flokks og þess flokks sem hv. þingmaður er nú í. Við ætlum að halda áfram samkeppni, við ætlum að halda áfram að efla ríkisháskólana á þeim forsendum sem við höfum gert. Við munum að sjálfsögðu fara yfir fjármagnið og hvernig við munum standa að fjármögnun skólanna nú sem endranær. Ekkert reiknilíkan er heilagt. Það hefur aldrei verið þannig, hvort sem við erum að tala um framhaldsskóla eða háskóla. Við munum ávallt endurnýja reiknilíkanið með það í huga og með þær forsendur að við viljum halda áfram að byggja upp rannsóknir og háskólastarf sem á að vera samkeppnishæft á alþjóðavettvangi. Að þessu höfum við stefnt og við erum á góðri leið.