135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:50]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé mig tilneyddan til að gera athugasemd við það sem fram kom í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Hún hélt því fram að ríkisstjórnin sem nú er við völd og stendur að þessu frumvarpi vildi að nemendur sem sækja nám í háskóla innrituðu sig og stunduðu nám í einkaskólum frekar en í ríkisháskólum. Þessi fullyrðing stenst ekki. Undir hana get ég ekki skrifað og ég hygg að félagar mínir í Samfylkingunni, sem eru í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, geti ekki skrifað undir það heldur. Þetta er einfaldlega ekki rétt hjá hv. þingmanni. (MÁ: Viltu ekki bara láta okkur um að tala.)

Það sem við viljum og það sem ég vil, af því að hv. þm. Mörður Árnason virðist ekki vera sammála því sem hér kom fram, (MÁ: Alveg nákvæmlega sammála.) eða það mátti lesa það úr frammíkalli hans. En það sem ég og Sjálfstæðisflokkurinn viljum er að nemendur hafi val og að þeir hafi sem mest val um það hvar þeir leita sér menntunar, í hvaða deildum og í hvaða skólum, óháð því hvort ríkið rekur þá skóla, á hvaða rekstrarformi þeir eru o.s.frv. Við viljum fjölbreytt háskólasamfélag. Við viljum styðja við bakið á öllum skólum landsins. Við viljum efla alla háskóla landsins, hvort sem það er Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Hólum eða hvaða skóli sem það er.

Við höfum sýnt það í verki bæði með fjárframlögum og með því að styðja við bakið á þessum skólum í opinberri umræðu og með þeim verkum sem við getum státað af á þessu sviði.