135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:52]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. formanni menntamálanefndar þegar hann segir að hann aðhyllist fjölbreytt háskólasamfélag. Ég kom að því í upphafi máls míns að ég væri hlynnt fjölbreyttu samfélagi hvað varðar háskólana. Ég fagna hverju nýju tækifæri sem ungir Íslendingar hafa til háskólanáms svo að það sé alveg á hreinu.

Hins vegar verð ég að benda hv. þingmanni á að það er rétt sem ég sagði áðan að í fjárlögum yfirstandandi árs er nemum í auknum mæli beint inn í einkareknu háskólana sem taka skólagjöld fremur en inn í hina opinberu. Máli mínu til stuðnings vitna ég til greinargerðar með fjárlagafrumvarpi ársins 2008. Á blaðsíðu 278 kemur fram fjölgun nemendaígilda í þessum skólum, þ.e. hvaða heimildir hafa skólarnir á fjárlögum til þess að fjölga ársnemendum. Þá kemur í ljós að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands fá lægri stuðul heldur en einkareknu háskólarnir, Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík. Stuðullinn í Háskólanum í Reykjavík er 5,8% fjölgun ársnema. Í háskólanum á Bifröst er hann 6,3% á meðan Kennaraháskóli Íslands fær einungis fjölgun ársnema upp á 3,2% og Háskóli Íslands 3%.

Þarna munar um það bil helmingi á fjölgun ársnema sem einkareknu skólarnir hafa í fjárlagafrumvarpinu þegar borið er saman við opinberu háskólana. Þetta er pólitísk stefnumótun sem þessi ríkisstjórn stendur að og hún kemur fram í þessu fjárlagafrumvarpi.