135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:54]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að ég og hv. þingmaður séum sammála um að ástæða sé til að stuðla að fjölbreyttu háskólasamfélagi. Við höfum barist fyrir því á hinu háa Alþingi og Sjálfstæðisflokkurinn hefur stuðlað að því á sínum tíma í menntamálaráðuneytinu. Enda sjáum við hvernig háskólaumhverfið hefur breyst.

Það er ekki langt síðan ég var í háskóla. Innritaðist þar árið 1993. En þegar ég tók ákvarðanir mínar um námið var staðan þannig að ég hafði í raun bara um einn háskóla að velja. Það var Háskóli Íslands. Ef ég væri í sömu sporum í dag hefði ég úr miklu fleiri möguleikum að moða.

Fleiri glæsilegir háskólar hafa staðið sig ákaflega vel og við eigum að standa á bak þá burtséð frá því hvort þeir eru einkareknir eða ríkisreknir. Við eigum að vera sammála um að efla og styrkja háskólasamfélag á Íslandi og hafa það fjölbreytt. Það er til góða fyrir nemendur og fyrir þjóðfélagið allt.

Ég hef ekki þær tölur fyrir framan mig sem hv. þingmaður nefndi. En ég get ekki fallist á að ríkisstjórnin eða Sjálfstæðisflokkurinn vilji stuðla að því að nemendur fari í einkaháskóla frekar en í ríkisháskóla. Eins og ég sagði, ég er ekki með þessar tölur sem hv. þingmaður nefndi en sé gengið út frá öðrum mælikvörðum, t.d. nemendafjölda í Háskóla Íslands, þá mætti halda því fram að ríkið stuðlaði fremur að því að stúdentar færu í ríkisháskóla en í einkaskóla. Nemendur þar eru miklu fleiri en í einkaskólum.

Ég held að þetta sé ekki svart og hvítt og tel því ekki hægt að fullyrða um þessi mál líkt og hv. þingmaður gerði. Aðalatriðið er að styðja og efla og styrkja alla þá háskóla sem hér starfa með það að markmiði að (Forseti hringir.) þeir verði til framdráttar kennurum, nemendum og öllum sem að háskólastarfi á Íslandi koma.