135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:59]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst gæta mikillar ónákvæmni í þessari umræðu. Mig langar að benda hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, sem talar fyrir skerðingu á framlagi til einkarekinna háskóla, á að það sem hún sagði áðan, um að einkareknir háskólar fengju meira framlag til stúdenta en Háskóli Íslands er rangt. (Gripið fram í.) Ég ætla aðeins að fá að lesa hér upp svolítið til að skýra mál mitt.

Beinar fjárveitingar á fjárlögum til Háskóla Íslands árið 2008, þetta er úr fjárlögunum, verða samtals 7,1 milljarður. Beinar fjárveitingar til Háskólans í Reykjavík eru tæplega 1,9 milljarðar kr. Nemendafjöldi þessara skóla, samkvæmt nýjustu upplýsingum á vef Hagstofunnar, er þannig að í Háskóla Íslands eru 9.586 nemar og í Háskólanum í Reykjavík 2.907 nemar. Þar munar um 15%, Háskóla Íslands í vil.

Mig langar að fara fram á, þegar umræða er tekin um mismunun svokallaða milli einkarekinna háskóla og opinberra háskóla af því það virðist vera mjög hátt og ofarlega á dagskrá, að fólk taki sér tak og skoði málin. Það eru allt öðruvísi rekstrarskilyrði í þessum tveimur formum og reyndar eru allir okkar háskólar ólíkir innbyrðis.

Mér þætti forvitnilegt að heyra Kolbrúnu Halldórsdóttur tala um að minnka framlag til Listaháskóla Íslands. Af hverju talar hún á þessum nótum? Við þurfum öll að sameinast um að efla háskólana okkar. Þetta er akkúrat það sem við eigum öll að standa fyrir.