135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir kemur með þær tölur úr fjárlagafrumvarpinu að það muni 15% hvað Háskóli Íslands fær meira á nemanda, ef ég skildi það rétt, en Háskólinn í Reykjavík. Ég verð að beina sjónum hv. þingmanns að því að þetta eru afar ólíkir skólar. Háskóli Íslands á sér áratugalanga sögu sem hefur verið að byggja upp gríðarlega öfluga starfsemi á mjög mörgum brautum. Hann er með rannsóknastofnanir á ýmsum sviðum. Ég man ekki hvað stofnanir háskólans eru margar en við skulum bara átta okkur á því að við berum hér saman afar ólíka skóla. Háskóli Íslands er flaggskip æðri menntunar á Íslandi sem við höfum haldið úti áratugum saman, við afar þröngan kost, og þjóðin öll er ákaflega stolt af. Sá skóli hefur náð rannsóknarsamningi við stjórnvöld sem aðrir háskólar vilja keppa að að fá. Ég styð sannarlega aðra háskóla, sem eru nýir og eru að feta sín fyrstu spor, í því að fá rannsóknarfjárframlag frá hinu opinbera. Þess vegna vil ég auka fjárframlag til rannsókna og til menntunar almennt. Ég vil ekki skerða framlög til neinna háskóla. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ég vilji skerða framlögin sem slík. Ég vil bara að allir háskólar hafi jafnháa upphæð á hvern nemanda hvort sem það er fengið með skólagjöldum eða opinberu framlagi. Þá vil ég undanskilja rannsóknarframlagið. Um rannsóknarframlagið fyrir Háskóla Íslands hljóta að gilda önnur lögmál en varðandi nýju háskólana. Þeir hljóta að verða að gefa sér tíma til að ná því framlagi. En þegar við leggjum saman skólagjöldin og hið opinbera framlag á nemanda til kennslu þá tel ég að það þurfi að vera sambærileg upphæð til opinberu háskólanna eins og hinna einkareknu.