135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:03]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti vænt um að heyra hv. þingmann segja að hún vilji ekki skerða framlög til háskólanna. Ég held að það skipti miklu máli. Mig langar líka að benda á að í þessari umræðu hefur ekki komið fram að einkareknu háskólarnir, og þá sérstaklega HR og Bifröst, eru með langflesta nemendurna í ódýrasta reikniflokknum. Það skiptir svolitlu máli að við áttum okkur á því að við þurfum að efla alla skólana og um leið og við tölum um skólagjöld þá er það ekki ofboðslega hátt hlutfall af heildarrekstri skólanna.

Skólagjöldin í HR eru 128 þús. kr. á önn. Skráningargjöldin eða skólagjöldin, eftir því hvernig maður vill líta á það, í HÍ eru 45 þúsund á ári. Það munar auðvitað svolitlu. En þegar grunneiningin er 400 þús. kr. fyrir ódýrasta reikniflokkinn er ekki hægt að reka háskóla á þeim forsendum. Ef við þykjumst eiga háskóla sem eru bara kennsluháskólar þá skulum við bara gleyma því vegna þess að það fást ekki starfsmenn í háskólastarf sem ekki fá svigrúm til að stunda rannsóknir. Þetta er ekkert flókið mál. Þetta fer algerlega saman, rannsóknir og kennsla, og því ber að líta á sheildarfjármagnið. Það munar þessum 15% á HÍ og HR og það er HÍ í vil. Ég vil fara fram á að þingmenn kynni sér þessi mál áður en þeir koma með fullyrðingu í ræðustól að það muni þannig að það sé hallað á opinberu háskólana.