135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:24]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður átti við. (SKK: Hann var að tala um skatta, hærri skatta.) En þegar maður setur hv. þingmann í eðlilegt sögulegt samhengi og skoðar í hvaða flokki hv. þingmaður er þá skilur maður málið. Hann byrjar á að gefa sér að einhver hafi sagt eitthvað sem hann hefur aldrei sagt og leggur síðan út af því.

Ég hef aldrei sagt það að ég teldi að fara ætti í fordómalausa umræðu um skólagjöld. Ég hef aldrei nefnt það þannig. Ég hef alltaf talað um að við færum í fordómalausa umræðu um jafnstöðu skólanna. Það er hins vegar ljóst að skólagjöld hljóta að koma inn í þá umræðu. En umræðan á ekki að vera um fordómalausa umræðu um skólagjöld eða að menn gefi sér fyrir fram að taka eigi þau upp.

Vandinn með hv. þingmenn Vinstri grænna er oft sá að þeir gefa sér fyrir fram einhverja niðurstöðu. Þeir hafa þessa hreinu línu. Þeir vilja, ef ég skildi hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur rétt, taka skólagjöld algjörlega út úr öllum skólum, út úr öllum skólum. (KolH: Að vel athuguðu máli.) Að vel athuguðu máli og spurning hve lengi og mikið þeir vilja þetta.

Ég sagði áðan að auðvitað er það falleg hugmynd, í besta heimi allra heima að þannig geti orðið. En við verðum að átta okkur á því þá hvað það kostar okkur. Hvernig við viljum framkvæma það og hvar viljum við auka skattheimtu eða skera niður. Við höfum takmörkuðu fjármagni úr að spila og ég tel að það sé bráðnauðsynlegt að við sýnum ábyrgð í því hvernig við förum með opinbert fé.

Það er hins vegar yfirlýst stefna þessarar ríkisstjórnar að forgangsraða í þágu menntunar. Menntun er sett fram fyrir ýmislegt annað. Það er stefnan og við teljum að menntun sé eitt það mikilvægasta sem við byggjum upp hjá þjóðinni. Þess vegna höfum við þá ábyrgu afstöðu að þessa hluti þurfi að skoða í heild sinni. Við gerum okkur grein fyrir því að það þarf aukið fjármagn í menntakerfið. (KolH: Þess vegna ætlið þið að lækka skatta.)