135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:26]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni sem ég lagði fyrir hann. Ég vil segja að ég hef ekki gefið mér neitt fyrir fram í þessu efni og ekki gert þingmanninum upp neinar skoðanir. Þess vegna var ég að spyrja hann. Ég spurði hann til að fá skýringar á því sem mér fannst koma fram í máli hans.

Hann talar um jafnrétti til náms, að það sé mikilvægt. Hann segir að við eigum að skoða þetta mál heildstætt og fordómalaust. Nú segir hann að hann hafi ekki verið að tala um skólagjöld en að sjálfsögðu muni þau koma inn í umræðuna. Mér er eiginlega sama hvernig þau ber að. En ég veit ekki betur en að greint hafi verið frá því í umræðum í gær hver stefna Samfylkingarinnar væri, afdráttarlaust samþykkt á landsfundi. Ég spyr þess vegna: Hvað meinar þingmaðurinn núna þegar hann kemur og segir að við verðum að ræða þetta allt fordómalaust? Hvað er best í heimi allra heima o.s.frv.? Er það þannig að Samfylkingin lifi nú í ríkisstjórnarheiminum og þá horfi hún allt öðruvísi á málið en hún gerði fyrir kosningar?

Ég spyr þingmanninn þessarar einföldu spurningar: Eru að hans mati, í huga jafnaðarmannsins Einars Más Sigurðarsonar, einhverjar líkur á að það muni auka jafnrétti til náms að taka upp skólagjöld í opinberum háskólum eða að hækka skráningargjöld? Það er mín spurning. Getur þingmaðurinn svarað henni?