135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:47]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Vegna athugasemda varðandi gildistökuákvæðið vil ég segja að þetta frumvarp um opinbera háskóla er ákaflega mikilvægt fyrir starfsemi háskólanna, þar á meðal Háskóla Íslands. Ég nefndi að ég og eflaust fleiri hefðum fundið fyrir miklum þrýstingi, m.a. frá Háskóla Íslands, á að gera þetta frumvarp að lögum fyrir sumarið til að háskólar geti komið í gildi fyrirætlunum sínum um að breyta stjórnskipulaginu.

Ég tel að við þurfum, ef það er rétt hjá hv. þingmanni að einungis 15 vinnudagar séu eftir af þinginu, að spýta í lófana, fjölga fundum nefndarinnar og gera það sem við getum til að koma til móts við óskir og sjónarmið háskólanna, sem ég hygg að komi fram í nefndarstarfinu þegar þeir koma til fundar við nefndina.

Ég hef fulla trú á að þessi ágæta nefnd og það góða fólk sem þar starfar, þar á meðal hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, muni leggja sitt af mörkum til að af því geti orðið. Ég geri ráð fyrir því að við högum vinnu okkar í tengslum við þetta mál og önnur með hliðsjón af aðstæðum.