135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:50]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg satt hjá hv. þingmanni að mikið álag hefur verið á menntamálanefnd þennan vetur og umfangsmikil frumvörp verið til umfjöllunar. Ég tel að við höfum unnið þau vel og séum komin á síðari hluta þeirrar vinnu í nefndinni. Við skulum bara sjá hvað setur með það.

Við skulum líka sjá hvað setur með þetta frumvarp. Nú hefur verið mælt fyrir því og við erum ekki komin með neinar umsagnir í hendur. Það má vel vera að háskólasamfélagið taki þessu frumvarpi opnum örmum og komi einungis með lítils háttar ábendingar og breytingartillögur sem auðvelt verður að vinna.

Ég hef aðeins skoðað athugasemdir frá stúdentum sem varða fyrst og fremst tvö atriði. Annars vegar er skipan háskólaráðsins og hins vegar skipunartími þeirra sem þar sitja. Ég hef ekki orðið var við aðrar mjög yfirgripsmiklar efnisbreytingar sem stúdentarnir vilja gera.

Við skulum sjá hvernig landið liggur þegar umsagnir koma fram. Þá er miklu raunhæfara að veita einhver svör um frekara framhald málsins. En við verðum hins vegar að líta til þeirra hagsmuna sem eru í húfi og vilja þeirra skóla sem eiga að starfa samkvæmt þeim lögum sem verða til þegar þetta frumvarp verður samþykkt, hvenær sem það verður.