135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

breytt fyrirkomulag á skráningu og þinglýsingu skipa.

521. mál
[13:52]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Hann greindi reyndar frá því að hann þekkti ekki forsögu málsins þannig að hann gæti ekki svarað því sem ég spurði um varðandi staðsetningu á færslu þinglýsingarbóka skipa og báta.

Það sem ég er í raun og veru að vekja hér máls á er að í frumvarpinu sem var lagt fram á 132. þingi, en varð ekki að lögum, var gert ráð fyrir að þessi vinna færi fram hjá einu sýslumannsembætti, þ.e. sýslumannsembættinu á Ísafirði. Það sem mér leikur forvitni á að vita er: Var það gert vegna þess að það var meðvituð ákvörðun um að reyna að flytja einhver störf út á land eða voru einhverjar aðrar ástæður fyrir því að það var lagt til? Hæstv. ráðherra segir nú að hann geti ekki svarað því en eftir stendur þá spurningin: Er ákvörðunin um að hafa fyrirkomulagið eins og frumvarpið gerir nú ráð fyrir, að binda þetta ekki við eitt embætti, sérstaklega meðvituð eða hvað liggur í raun og veru að baki henni?

Þetta eru bara vangaveltur og mér finnst eðlilegt að við förum betur yfir málið á vettvangi samgöngunefndar og spyrja út þá sem þekkja gjörla til samningu þessa frumvarps og vinnunnar á bak við það, bæði af hálfu ráðuneytisins og Siglingastofnunar, þannig að við fáum nánari svör við þessum spurningum og öðrum sem kunna að vakna í vinnslu málsins.