135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Póst- og fjarskiptastofnun.

522. mál
[14:02]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem hæstv. samgönguráðherra rakti þegar hann mælti frumvarpinu sem hér um ræðir. Ég tek það sérstaklega fram að ég tel að um úrskurðarnefnd í málum varðandi póst- og fjarskipti séu hlutirnir færðir til þess horfs sem almennt gildir um úrskurðarnefndir. Það skiptir verulegu máli að menn hafi einsleitni, en slíkar nefndir eru hugsaðar sem ákveðin, ódýr og fljótleg leið fyrir hinn almenna neytanda eða aðila á viðkomandi starfssviði til að fá fljótt og örugglega álit, þess vegna lögfræðiálit eða hlutlægt álit á því hvernig skuli fara með mál. Ég tel að með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til fari menn rétta leið.

Það er hins vegar spurningin um hvernig eigi að fara með þá fresti sem um er að ræða og hámarksmálsmeðferðartíma. Yfirleitt er miðað við það varðandi úrskurðarnefndir, og þau sjónarmið hafa verið uppi innan Evrópusambandsins varðandi úrskurðarnefndir í svona málum, að málsmeðferðartíminn sé almennt skammur, að miðað sé við að þær séu hraðvirk leið til að ljúka þeim ágreiningi sem þar er um að ræða. Dómstólaleiðin er jú almennt fær eftir að úrskurður úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir.

Úrskurður úrskurðarnefndarinnar er hugsaður þannig að hann minnki álag á dómstóla, auðveldi neytendum að bera upp kvörtunarmál og þeir geti með ódýrum hætti leitað eftir lausn og a.m.k. ráðgefandi álit.

Spurningin er sem sagt um málsmeðferðartímann: Hve langur hann á að vera? Það skiptir verulegu máli að hafa hann sem stystan, þó ekki styttri en svo að efnislega og vel sé tekið á málum. Ég tel að það sem hér er um að ræða sé tvímælalaust til bóta, þ.e. að leggja til að koma á betra horfi varðandi málefni úrskurðarnefndarinnar en verið hefur.

Það er eitt atriði sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni af því að það hefur lengi plagað mig. Mér hefur fundist það lengi mjög vont að víða í lögum er Hæstarétti Íslands falið að taka þátt í eða hafa afskipti af stjórnsýslunni, jafnvel löggjöfinni, með einum eða öðrum hætti, að skipa nefndir og annað. Ég tel að það eigi almennt að þurrka úr lögum, að miða við að Hæstiréttur Íslands sé sem æðsti dómstóll landsins og hann gegni því hlutverki. En það er öðrum falið eins og er raunar með stjórnarskrá, að gæta þeirra hagsmuna sem heyra undir framkvæmdarvald og löggjafarvald.

Það er mjög mikilvægt að skipta mun betur á milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds heldur en gert er í íslenskri löggjöf. Ég tek undir og er sammála því að heppilegra sé, ef um tilnefningaraðila er að ræða, að aðrir sinni því en dómstólar. Ég tala ekki um æðsta dómstól landsins sem á að njóta óskoraðrar virðingar sem æðsti dómstóll landsins. Það á ekki að blanda honum inn í stjórnsýsluna sem slíka.

Ég vil taka þetta sérstaklega fram af því að mér hefur fundist skorta á að menn hafi hugsað nægilega vel út í að það er ekki hlutverk dómstóla að blanda sér í stjórnsýsluna með þessum hætti. Það verður að leita eftir öðrum tilnefningum varðandi úrskurðarnefndir eða aðrar slíkar nefndir sem heyra undir stjórnsýsluna, nema þá að það heyri undir dómsvaldið sem slíkt.

Ég fagna því sérstaklega að þessi breyting skuli gerð. Mér hefur stundum fundist ég vera hrópandinn í eyðimörkinni þegar kemur að þessu. En það er spurning um hvenær tími minn kemur.