135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

fjarskipti.

523. mál
[14:28]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.

Frumvarpið var unnið í samvinnu samgönguráðuneytis og Póst- og fjarskiptastofnunar.

Megintilgangur frumvarpsins er að innleiða ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 717/2007 frá 27. júní 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins, og um breytingar á tilskipun 2002/21/EB, eða reikireglugerðarinnar, eins og hún heitir. Jafnframt að styrkja heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja smásölukvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar, fella niður ákvæði um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita innanlandsreiki í farsímanetum nema í kjölfar markaðsgreiningar, auk þess sem gert er ráð fyrir nokkrum breytingum á gildandi fjarskiptalögum til þess að efla neytendavernd.

Virðulegi forseti. Ég vík nú að athugasemdum um ákveðnar greinar frumvarpsins.

Ákvæðið er til þess að fella íslenska löggjöf að áðurgreindri reikireglugerð. Markmið hennar er að tryggja að notendur almennra farsímaneta borgi ekki óhóflegt verð fyrir reikiþjónustu innan EES-svæðisins þegar þeir hringja eða taka á móti símtölum þegar þeir eru á ferðalagi erlendis. Þetta er til þess að ná fram öflugri neytendavernd og um leið til að tryggja samkeppni milli rekstraraðila farsímaneta.

Með því að fella brott 35. gr. laganna er sérstök skylda til innanlandsreikis í almennum farsímanetum aflögð. Þessi breyting er í samræmi við athugasemdir ESA, frá 28. september 2006, og aðgangstilskipun ESB nr. 2002/19/EB, en samkvæmt henni verða aðgangskvaðir aðeins lagðar á fjarskiptafyrirtæki sem tilnefnd hafa verið sem fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar. Ákvæði 28. gr. fjarskiptalaga þykja fullnægjandi í þessu sambandi.

Orðalag nýrrar 35. gr. laganna tekur til erlends reikis. Með reikireglugerðinni er innleidd sérstök Evrópugjaldskrá sem felur í sér tiltekin mörk á það gjald sem rekstraraðilum farsímaneta er heimilt að taka fyrir að veita alþjóðlega reikiþjónustu innan EES-svæðisins. Þessi hámarksgjaldskrá á að endurspegla eðlilega álagningu miðað við heildsölukostnaðinn við að veita reikiþjónustuna, en um leið að veita rekstraraðilunum frelsi til samkeppni með því að greina á milli tilboða þeirra og aðlaga verðlagningu þeirra að markaðsaðstæðum og vali neytenda. Jafnframt er í reglugerðinni sérstaklega kveðið á um skyldur farsímafyrirtækja til þess að upplýsa viðskiptavini sína meðal annars um þann kostnað sem getur orðið við að hringja eða taka á móti símtali í öðru landi. Þrátt fyrir að reglugerðin sé ekki innleidd fyrr en nú tekur gjaldtaka fjarskiptafyrirtækjanna hér á landi nú þegar mið af ákvæðum hennar.

Með nýrri málsgrein við 27. gr. laganna verður kveðið á um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja smásölukvaðir á fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk í kjölfar markaðsgreiningar. Þessi heimild á við ef stofnunin telur að heildsölukvaðir muni ekki skila tilætluðum árangri í að efla samkeppni og tryggja hagsmuni notenda fjarskiptaþjónustu. Með þessari breytingu er 17. gr. alþjónustutilskipunar ESB nr. 2002/22/EB innleidd, en kvaðirnar sem greinin heimilar í slíkum tilvikum, felur í sér kröfur um að tilgreind fyrirtæki setji ekki upp of hátt verð, hamli ekki aðgangi að markaði eða takmarki ekki samkeppni með tilgreindum hætti. Í gildandi lögum eru engar slíkar kvaðir og því felur breytingin í sér fullnægjandi innleiðingu tilskipunarinnar í íslensk fjarskiptalög.

Í þeim tilgangi að ná fram öflugri neytendavernd og tryggja frekari samkeppni á fjarskiptamarkaði er lagt til að gildissvið helstu ákvæða laganna þar sem kveðið er á um talsímaþjónustu verði víkkað út svo að lögin nái jafnt yfir tal- og farsímaþjónustu.

Farsímafyrirtækjum er þannig gert að sjá til þess að viðskiptavinir þeirra séu upplýstir um kostnað sem hlýst af því að hringja í net annarra fjarskiptafyrirtækja hér á landi. Jafnframt að tryggja neytendum aðgang að reikningum yfir viðskipti sín við fjarskiptafyrirtækin og tryggja að notendur farsímaþjónustu njóti sömu réttinda og notendur talsímaþjónustu þegar fjarskiptafyrirtækin grípa til aðgerða vegna vanskila notenda.

Lagðar eru til breytingar á 1. mgr. 65. gr. laganna sem fjallar um markaðssetningu fjarskiptabúnaðar. Fram kemur í ákvæðinu að óheimilt sé að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir tilteknar grunnkröfur og ber CE-merkingu því til staðfestingar. Með því að taka af öll tvímæli um að innflutningur einstaklinga til eigin nota eða í öðrum tilgangi teljist markaðssetning er verið að tryggja neytendavernd og jafnræði milli neytenda auk þess sem minni hætta ætti að vera á fjarskiptatruflunum og röskun fjarskiptaöryggis.

Að lokum eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæði laganna er fjalla um útgáfu Póst- og fjarskiptastofnunar á skírteinum sem heimila einstaklingum að starfrækja ákveðnar tegundir þráðlauss búnaðar eins og talstöðva. Í ljósi markmiða um einfaldari stjórnsýslu er lagt til að fella niður skilyrðislausa kröfu um skírteini sem hætt er að þjóna tilgangi sínum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.