135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

fjarskipti.

523. mál
[14:59]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni sem gerði grein fyrir því hvernig hann hefði komið að málum í EFTA-nefndinni og haft afskipti af því. Ekki er nógu oft vikið að því að það er verulega til vansa að þingmenn skuli samþykkja að á ferðinni skuli vera löggjafarstarfsemi, undirbúningur og umræða undir löggjöf, án þess að nokkurn tíma komi til kasta Alþingis Íslendinga á því stigi sem íslenska þjóðin að þjóðarétti hefur nokkuð með það að gera. Vegna þess hversu illa og óhönduglega tókst til við gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið höfum við enga möguleika til að skipta okkur af þeirri löggjöf sem okkur er síðan ætlað að lögleiða nema á byrjunarstigi, meðan málið er á fyrsta undirbúningsstigi, sem venjulegast tekur þá nokkur ár að fullgilda og fer í gegnum mjög marga aðila og margar nefndir til þess að verða að tilskipunum eða reglugerðum Evrópubandalagsins. Þetta er það sem við þurfum að sæta — við, Norðmenn og Liechtenstein — vegna þess hvernig samið var á sínum tíma um Evrópska efnahagssvæðið, að við höfum ekkert með málið að gera nema á byrjunarstigi.

Mér finnst full ástæða til, alltaf þegar tækifæri gefst til, að vekja athygli á því að það er óþolandi að fagráðherrar hver á sínu sviði, og þá sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra, gæti þess ekki — og það á að vera í verkahring hæstv. utanríkisráðherra að gæta að því — að Alþingi Íslendinga sé þátttakandi í allri löggjafarstarfsemi sem lýtur að og varðar þær reglur og regluverk sem kemur frá Evrópusambandinu og að starfsnefndir Alþingis geti fylgst með málum með sama hætti og hagsmunaaðilar gera á Íslandi.

Á grundvelli þess að Alþýðusamband Íslands er í Evróputengslum er þar verið að fjalla um reglugerðir á sviði vinnuréttar. Sama er um Samtök atvinnulífsins, sama er um Neytendasamtökin o.s.frv. Á Alþingi Íslendinga, sem hefur það stjórnarskrárskipaða hlutverk að setja þjóðinni lög, sitja menn og hafa ekkert um málið að segja fyrr en það er lagt til í frumvarpsformi, að taka upp ákvæði reglugerðar Evrópuþings og Evrópuráðs samkvæmt ákveðnu númeri og nafni. Þá höfum við enga möguleika til að gera einhverjar breytingar eða setja fram athugasemdir. Það finnst mér athugavert.

Nú skal það hins vegar viðurkennt að iðulega er um verulegar réttarbætur að ræða í þessu regluverki en ég ber samt sem áður svo mikla virðingu fyrir íslensku hugviti og íslenskri getu, og möguleikum okkar sem höfum og eigum að sinna umræddu hlutverki, að við gætum gert góða hluti enn betri. Það er hlutverk okkar og því verðum við að sinna.

Mun vitlegra hefði verið — með þeim gríðarlega kostnaðarauka sem hellt var yfir landsmenn í tengslum við starfsemi Alþingis, m.a. aðstoðarmenn o.fl. — að skipta því þannig að búinn væri til þekkingarbanki, m.a. á þessu sviði, þannig að þingmenn væru færir um að sinna löggjafarstarfinu eins og þeim ber skylda til, m.a. varðandi hinar erlendu gerðir. Þar er potturinn fyrst og fremst brotinn.

Á sama tíma og ég hef lýst yfir stuðningi við frumvarpið gengur það að hluta til lengra en tilskipun Evrópusambandsins og um lágmarkstilskipun er að ræða, eftir því sem ég get séð, þannig að við getum gengið lengra. En ég tel að við eigum líka að skoða hvort samkeppni sé næg varðandi GSM-þjónustu á innanlandssviðinu og tel að veruleg ástæða sé til að fylgjast mjög vel með því.