135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

fjarskipti.

523. mál
[15:04]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er einmitt kjarni málsins sem hér kom fram hjá hv. þm. Jóni Magnússyni að það er í raun fyrst og fremst á frumstigi mála sem EFTA-ríkin eða EES-ríkin hafa möguleika á því að koma að undirbúningi löggjafar og hafa áhrif á hana. Það er sannarlega þannig í EES-samningum að við Íslendingar eins og Noregur og Liechtenstein höfum tæki og tækifæri til að koma að undirbúningi mála, taka þátt í undirbúningsvinnu í nefndum stjórnsýslunnar, við höfum möguleika á því að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Það er meira að segja þannig að í samskiptum af þeim toga þegar verið er að undirbúa löggjöf er ekkert sérstaklega verið að spyrja að því, eins og ég hef skilið málin, hvort athugasemdir komi frá Evrópusambandsríki eða EFTA-ríki í EES-samstarfinu. Það er fyrst og fremst spurt að því hvað menn hafi til málanna að leggja, hvaða þekkingu menn búi yfir, hvernig þau sjónarmið sem þarna koma fram geti nýst í þeirri vinnu sem verið er að vinna þegar löggjöf er undirbúin.

Þarna höfum við auðvitað mjög margt til málanna að leggja. Það hefur komið fram, m.a. af hálfu fulltrúa Evrópusambandsins, að í sumum málum eins og t.d. tilskipun sem nú er í umræðunni um málefni siglinga, hafi þau sjónarmið sem Noregur og Ísland settu fram í undirbúningsvinnunni haft veruleg áhrif á þá tilskipun Evrópusambandsins einfaldlega vegna þess að það eru lönd sem létu sig þetta mál varða strax á frumstigi og hafa mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði og gátu haft áhrif. Menn sáu það í Evrópusambandinu að þarna voru sjónarmið, viðhorf og reynsla sem eðlilegt var að taka tillit til. Ég segi því eins og hv. þm. Jón Magnússon að íslenska stjórnsýslan og íslenskir sérfræðingar hafa margt til málanna að leggja í mörgum málum sem verið er að vinna og það getur átt við í fjarskiptamálunum eins og á hverju öðru sviði. Þess vegna er mjög mikilvægt að við fylgjumst með því sem verið er að gera og tökum þátt í því.

Ég tek undir það að í rauninni er ekki boðlegt fyrir þingið að þessi mál beri alltaf að því á allra síðustu stigum og þetta sé í raun og veru frágengið allt saman, vegna þess að það t.d. hvort einhver tilskipun eins og sú sem hér er á ferðinni eða hver önnur heyrir undir EES-samninginn eða ekki er í sjálfu sér pólitísk ákvörðun. Fyrsta spurningin sem ég mundi vilja spyrja þegar svona mál koma upp er sú: Heyrir viðkomandi tilskipun undir EES-samninginn eða ekki? Þeirri spurningu er að sjálfsögðu svarað en það er gert á embættisstiginu, af hálfu stjórnsýslunnar þannig að sú pólitíska umræða fer í raun ekki fram eins og hún ætti að gera að mínu viti.

Af því að þingmaðurinn Jón Magnússon sagði að við og Noregur og Liechtenstein værum undir þá sök seld að hafa lítil áhrif nema rétt á allra fyrstu stigum vek ég athygli á því að í norska Stórþinginu hafa verið settar mjög ákveðnar reglur um meðferð EES-tilskipana, hvernig þær koma inn í þingið, á hvaða stigum, hvaða meðferð þær fá þar og umfjöllun. Við getum lært af því, ég veit að utanríkismálanefnd hefur farið og kynnt sér þessi mál í norska Stórþinginu og ég held að við ættum bara að taka upp svipað vinnulag og þar er. Þingmenn norska Stórþingsins hafa miklu meiri aðgang að því sem er að gerast hjá Evrópusambandinu, miklu meiri upplýsingar um þær tilskipanir sem eru í undirbúningi af því að þær koma þar til kynningar á miklu fyrri stigum en gert er hér. Við eigum auðvitað ekki að sætta okkur við að þetta sé með öðrum hætti hér en í öðrum þingum EES-ríkjanna. Ég tel að við getum gert miklu betur í þessu og ítreka það sem ég hef sagt áður í umræðunni um þetta mál og tek undir það með hv. þm. Jóni Magnússyni.