135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007–2010.

519. mál
[15:09]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010.

Forsaga málsins er sú að Alþingi samþykkti þann 17. mars 2007 þingsályktun um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010. Í kjölfar ákvörðunar um niðurskurð þorskkvótans síðastliðið sumar ákvað ríkisstjórnin að grípa til mótvægisaðgerða í formi framkvæmda í samgöngumálum til að draga úr áhrifum fyrirsjáanlegs aflasamdráttar og styrkja innviði fjölmargra svæða á landsbyggðinni. Tilkynnti ríkisstjórnin flýtingu framkvæmda að upphæð 6.500 millj. kr. Í ljósi svo mikilla breytinga á samgönguáætlun þótti nauðsynlegt að gera viðauka við hana, sem ég legg nú fram í formi þingsályktunartillögu, og geri þar með grein fyrir breytingum á einstökum liðum áætlunarinnar.

Mun ég hér á eftir gera grein fyrir helstu breytingunum sem lagt er til að gerðar verði á samgönguáætluninni í hverjum málaflokki fyrir sig.

Helstu breytingar á áætlun um flugmál eru þær að lagt er til að lengingu Akureyrarflugvallar um 460 metra auk ýmissa annarra tengdra aðgerða verði flýtt. Viðhaldsframkvæmdum á flugvellinum er einnig flýtt til samræmis. Gert er ráð fyrir að gerð verði flughlöð við nýja samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli og einnig verði gerð ný bráðabirgðaaðstaða fyrir innanlandsflug á vellinum, m.a. vegna áforma um aukna samkeppni og eins til þess að bæta úr brýnni þörf fyrir húsnæði sem fyrir hendi er burt séð frá því hvaða ákvarðanir kunna síðar að verða teknar um framtíðarflugvallarstæði. Framangreindar framkvæmdir eru fjármagnaðar með lántöku hjá ríkissjóði á svipaðan hátt og endurgerð Reykjavíkurflugvallar á sínum tíma. Tekið er fram að sérstök fjáröflun til samgöngumiðstöðvarinnar er felld niður þar sem gert er ráð fyrir að miðstöðin verði fjármögnuð á annan hátt og hún standi sjálf undir kostnaði við fjárfestingu og rekstur.

Víkur þá sögunni að siglingamálum. Liður í ákvörðun ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir vegna samdráttar þorskveiðiheimilda var að fresta skyldi gildistöku ákvæða hafnalaga um breytingu á styrkjum til hafnarframkvæmda um tvö ár eða til 1. janúar árið 2011. Hafnir sem verða fyrir tekjusamdrætti og eru með verkefni inni á gildandi samgönguáætlun eiga því möguleika á að fresta framkvæmdum sem voru á áætlun árin 2007 eða 2008 til áranna 2009 og 2010. Nokkrar hafnir hafa þegar valið þennan kost í ár og ljóst er að fleiri munu bætast í hópinn á næsta ári. Í fjárlögum fyrir árið 2008 var þess vegna tekin ákvörðun um tímabundna frestun 200 millj. kr. framlags til hafnarmannvirkja. Á grundvelli upplýsinga sem fyrir liggja hjá Siglingastofnun Íslands um stöðu verkefna er gerð tillaga um færslu verkefna fyrir 200 millj. kr. frá árinu 2008 yfir á árin 2009 og 2010.

Frá samþykkt samgönguáætlunar 2007–2010 í mars 2007 hafa komið fram óskir um nokkrar minni háttar breytingar á verkefnum sem falla undir siglingamálakafla áætlunarinnar. Hér er gerð tillaga um breytingar á samgönguáætlun til að mæta þessum óskum. Um er að ræða breytingar á fimm liðum í siglingamálaáætluninni, tvær á rekstrarliðum og þrjár á stofnkostnaðarliðum. Lagt er til að liðurinn Hafnir, líkantilraunir og grunnkort verði hækkaður vegna óska sveitarfélaganna um rannsóknir vegna nýrrar atvinnustarfsemi. Eins er gerð tillaga um fjárveitingu til að hefja fyrstu rannsóknir og líkantilraunir vegna nýrrar hafnar við Húsavík. Gerð er tillaga um hækkun á samningi við Neyðarlínuna um rekstur Vaktstöðvar siglinga. Einnig eru gerðar ýmsar tillögur um breytingar og frestun verkefna að ósk sveitarfélaganna.

Þá er komið að vegamálunum. Meginefni breytinga áætlunarinnar í vegagerð tekur á ákvörðun sem ríkisstjórnin tók á síðastliðnu sumri um flýtingu framkvæmda eins og áður hefur komið fram. Helstu breytingar í vegagerð samkvæmt því eru þessar:

Framkvæmdum við Suðurstrandarveg verður flýtt og lýkur árið 2010.

Framkvæmdum við Snæfellsnesveg á Fróðárheiði verður flýtt og lýkur 2010.

Framkvæmdum við Vestfjarðaveg frá Þorskafirði til Vatnsfjarðar verður flýtt. Þær fjárveitingar sem lagt er til að veittar verði til Vestfjarðavegar koma til viðbótar fjárveitingum af söluandvirði Símans. Með þessu fjármagni á að vera unnt að ljúka endurbyggingu vegarins frá Þorskafirði í Kollafjörð. Vegurinn austan Þorskafjarðar verður lagfærður og lagt á hann bundið slitlag. Unnið verður að endurgerð vegarins milli Vattarfjarðar og Vatnsfjarðar.

Framkvæmdum við jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verður flýtt og lýkur þeim 2012.

Framkvæmdum við Strandaveg frá Djúpvegi að Drangsnesvegi verður flýtt og lokið við að leggja bundið slitlag á hann árið 2009.

Framkvæmdum við Dettifossveg verður flýtt og þeim lokið 2010.

Framkvæmdum við Norðausturveg verður flýtt. Með þeim fjárveitingum sem lagt er til að komi til Norðausturvegar verður unnt að leggja nýjan veg á milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar, gera tengingar til Raufarhafnar og Þórshafnar og ljúka tengingu frá Vopnafirði að hringvegi. Með þessum fjárveitingum er áætlað að ljúka framkvæmdum á norðurhluta vegarins árið 2009 en 2010 á suðurhlutanum í Vopnafirði.

Framkvæmdum við jarðgöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar verður flýtt og hefjast þær árið 2009 og mun ljúka 2012.

Hafnar verða framkvæmdir við nýjan veg yfir Öxi árið 2009 og mun þeim ljúka árið 2011.

Nokkrar aðrar tillögur eru gerðar um breytingu á áætluninni. Ein þeirra er um nýjan tengiveg að Bakkafjöruhöfn, sem nú heitir Landeyjahöfn, en samkvæmt áætlunum sem nú eru uppi um hafnargerð þar þarf að leggja veginn á þessu ári.

Ein veigamesta breytingin á samgönguáætlun varðar jarðgöng undir Vaðlaheiði og tvöföldun Suðurlandsvegar. Miðað er við að framkvæmdir við Vaðlaheiði geti hafist á árinu 2009 og ljúki árið 2011 og að framkvæmdir við tvöföldun Suðurlandsvegar frá Litlu kaffistofunni að Hveragerði hefjist árið 2009. Báðar þessar framkvæmdir verða unnar í einkaframkvæmd. Hlutur ríkisins verður greiddur með jöfnum árlegum greiðslum í 25 ár eftir að framkvæmdum lýkur.

Virðulegi forseti. Óhætt er að fullyrða að margir landsmenn hafa beðið með þó nokkurri óþreyju eftir því að hafist verði handa við þessar tvær framkvæmdir, Vaðlaheiðargöng og tvöföldun Suðurlandsvegar. Því er mikið ánægjuefni að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga skuli gera ráð fyrir þessum verkum báðum.

Vaðlaheiðargöng stytta leiðina milli Akureyrar og Húsavíkur, og þar með hringveginn, um 16 kílómetra og gegna lykilhlutverki í því að skapa á Norðausturlandi eitt öflugt atvinnusvæði, þjóðinni allri til góða. Að hafist verði handa við tvöföldun Suðurlandsvegar var fyrir löngu orðið brýnt umferðaröryggismál en umferð um Suðurlandsveg í nágrenni höfuðborgarinnar fer sífellt vaxandi.

Nokkrar aðrar breytingar felast í viðauka við samgönguáætlun sem vert að útlista í lokin. Lagt er til að greitt sé mótframlag vegna endurbóta á ferjuhöfnum á Dalvík og á Brjánslæk. Þá felur viðaukinn einnig í sér tilfærslu á fjárveitingum milli ára þar sem sýnt þykir að ekki verður unnt að vinna að nokkrum verkefnum eins og fyrri áætlun gerði ráð fyrir og undirbúningur hefur tekið lengri tíma en áætlað var. Hér er um að ræða Sundabraut og tilteknar framkvæmdir við Vesturlandsveg og Suðurlandsveg. Eru fjárveitingar til þessara framkvæmda færðar til á milli ára. Hluti af því svigrúmi sem við það myndast er notað til að auka framkvæmdir við tengivegi um 700 millj. kr. Þá má geta þess að stofnkostnaður vegna Grímseyjarferju er tiltekinn sérstaklega en var áður innifalinn í upphæðinni til ferja og flóabáta. Að lokum er lagt til að gerðar verði breytingar á fjárveitingum til almenningssamgangna, m.a. vegna fjölgunar ferða Herjólfs til Vestmannaeyja og til styrktar flugsamgöngum til Vestmannaeyja.

Hæstv. forseti. Tillaga þessi til þingsályktunar um viðauka við samgönguáætlun 2007–2010 sem ég hef hér mælt fyrir felur í sér mikla aukningu framkvæmda í samgöngumálum. Hún er til þess fallin að styrkja innviði byggðanna með flýtingu mikilvægra aðgerða en jafnframt er stigið stórt skref á sviði umferðaröryggismála með upphafi framkvæmda við tvöföldun Suðurlandsvegar. Þessi áætlun og í raun allt það mikla átak sem við verðum nú vitni að í samgöngumálum er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og loforð fyrir kosningar um stórsókn í samgöngumálum. Það er sannfæring mín og ríkisstjórnarinnar að góðar og öruggar samgöngur um land allt, sem og trygg fjarskipti ráði úrslitum um það hvort okkur auðnist að skapa á Íslandi eitt blómlegt atvinnusvæði byggt á traustum grunni, þar sem íbúar njóta jafnræðis til góðra lífskjara og geta allir lagt sitt að mörkum til hagvaxtar og uppgangs þjóðfélaginu öllu til heilla.

Um er að ræða miklar og mikilvægar framkvæmdir. Ég er þess fullviss að þær munu verða þjóðinni allri til heilla á komandi árum. Þetta er upphafið að nýjum tímum í samgöngumálum á Íslandi, vil ég leyfa mér að segja. Hér er ekki bara um að ræða mótvægisaðgerðir vegna tímabundinna erfiðleika. Hér er beinlínis verið að leggja grunninn að þjóðhagslegum vexti framtíðarinnar þar sem góðar samgöngur, styttri og öruggari leiðir milli fólks og staða munu gegna lykilhlutverki. Þetta verk er ærið og ég hef fundið það hvarvetna, ekki síst hér í þingsal, að um mikilvægi þessa máls ríkir mikill samhugur.

Hæstv. forseti. Ég hef nú mælt fyrir þingsályktunartillögu um viðauka við samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. samgöngunefndar.