135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:34]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur sýnt sig á þeim liðlega tveimur árum sem liðin eru frá því að Vegagerðin lamdi í gegn aðferðina 2+1 um Svínahraun að sú leið og sú aðferð er gjörsamlega óbrúkleg. Ósjaldan hafa komið upp þau tilvik að bílar hafa stoppað á einföldu akreininni, bilað og lent í vandræðum, og það hefur stoppað alla umferð um Suðurlandsveg. Ekki einu sinni björgunarsveitir hafa komist að bílunum.

Við búum við þannig landslag og aðstæður að það er í rauninni í heild ekkert dýrara að hafa 2+2 en 2+1 með alls konar hliðarvikum og sveigjum í okkar líflega landslagi. Þó ekki væri nema það þá svarar það strax spurningum um það hvað sé skynsamlegt í þessum efnum. En öryggið felst fyrst og fremst í því að fjölga akreinum á þessu svæði. Gott dæmi er svæðið milli Selfoss og Hveragerðis þar sem óhugnanlega mörg slys eru, banaslys og erfið slys, og 2+2 er lágmarkið sem nútímamenn eru að tala um. Bara lágmarkið.