135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:42]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skýtur skökku við þegar hv. þm. Grétar Mar Jónsson er farinn að verja rangar upplýsingar. Það hefur tíðkast í æ ríkari mæli undanfarin ár að Vegagerðin tjaldar röngum upplýsingum. Hægt er að færa rök fyrir því í mörgum tilvikum. Alveg sama hvort verið er að tala um Grímseyjarferju, kostnað við gerð jarðganga eða aðra þætti sem hafa gjörsamlega farið úr böndum hjá Vegagerðinni.

En ég ætla ekki að teygja lopann í þeim efnum núna heldur benda á að full rök eru fyrir því sem ég segi, að Vegagerðin hefur þvingað fram ákveðna hluti með því að skila ekki fullnægjandi upplýsingum. Fúskvinnubrögð.