135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:43]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ekki ætla ég að taka það að mér að verja stofnanir ef þær nota þau vinnubrögð sem hv. þm. Árni Johnsen heldur fram. Það eru slæm tíðindi ef það er tilfellið að Vegagerðin vinni með þeim hætti að gefa upp rangar upplýsingar um rannsóknarþætti.

Hv. þingmaður hefur mikla þingreynslu, 20 ára þingreynslu, og hefur verið mikill áhugamaður um samgöngubætur, það verður aldrei af honum skafið að hann hefur lagt sig fram um þær og fáir þingmenn hafa verið jafnstórhuga í samgöngumálum og hv. þm. Árni Johnsen. Ég er nýliði hér og ætla ekki að fara í frekari umræður við Árna Johnsen um það en kannski hefur hann rétt fyrir sér hvað Vegagerðina varðar.

Ég hef stundum gagnrýnt stofnanir sem ég þykist þekkja til og á ýmsum sviðum og síðast í gær fékk ég bágt fyrir að tala um vísindamenn og þekkingu þeirra á fiskstofnunum í hafinu. Kannski er þetta bara líkt með okkur Árna hv. þingmanni Suðurkjördæmis Johnsen og kannski erum við bara á sama báti í þessu. Hann þekkir vel til í þeim geira sem snýr að samgöngumálum og Vegagerðina og samgönguráðuneytið og hvernig þessar stofnanir starfa.

Sem nýliði verð ég að játa að ég hef ekki þessa reynslu og ég hélt að þetta þekktist ekki en ég fékk eiginlega hálfgerðar vítur frá sjávarútvegsráðherra í gær fyrir að efast um heilindi heillar stofnunar og þekkingu og visku þeirra (Forseti hringir.) á sviði sjávarútvegs.