135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:45]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun 2007–2010. Ég vildi gera þennan viðauka að umtalsefni og óska eftir því að hæstv. samgönguráðherra svari nokkrum spurningum sem ég vil leggja fyrir hann. Þannig er að núgildandi samgönguáætlun sem samþykkt var í mars á síðasta ári gerði ráð fyrir því að hafist yrði handa um tvöföldun vegarins frá Reykjavík og austur fyrir Selfoss með brú yfir Ölfusá norðan Selfoss. Það er sú áætlun sem er í gildi. Ég hef upplýsingar um að í apríl á síðastliðnu ári ritaði þáverandi samgönguráðherra Vegagerð ríkisins bréf þar sem óskað var eftir því að hafist yrði handa um undirbúning að þessu verki, fyrst með því að sveitarfélögin færu í skipulagsvinnu sem nauðsynleg væri fyrir þessa framkvæmd, sem er 2+2 frá Reykjavík austur fyrir Selfoss með brú eins og ég nefndi. Ég minnist þess að hafa sjálfur átt aðild að því að sú framkvæmd, ný brú, væri tekin inn á það tímabil sem þarna var um að ræða.

Nú hef ég að sjálfsögðu fylgst með þessu máli frá því að þessar samþykktir voru gerðar. Mér er vel kunnugt um að Vegagerðin og sveitarfélögin á þessu svæði í Suðurkjördæmi hafa verið að vinna að skipulagsmálum á svæðinu og það verk er mislangt komið eftir því hvar er. Hins vegar hef ég heyrt frá hæstv. samgönguráðherra nokkrum sinnum á blaðamannafundum og í tilkynningum að nú loksins sé búið að taka ákvörðun um að tvöfalda eigi Suðurlandsveg. Ég átta mig ekki á því hvenær sú ákvörðun var tekin. Ég skil það svo að hún hafi verið tekin í fyrravor og þrátt fyrir blaðamannafundi og kynningarfundi um framkvæmdina sé ekkert nýtt í því. Þess vegna langar mig að spyrja: Hvað er verið að gera með þeirri áætlun sem nú er lögð fram með þessum viðauka við samgönguáætlun þar sem segir m.a. um Suðurlandsveg, með leyfi forseta:

„Í gildandi áætlun fyrir árin 2007–2010 var gert ráð fyrir að af sérstakri fjáröflun komi 1.400 millj. kr. til tvöföldunar Suðurlandsvegar í Suðurkjördæmi.

Það stendur alveg skýrt, þetta er til tvöföldunar á þessum vegi. Það er skýrt að búið var að taka þessa ákvörðun í fyrravor. Núna er spurningin: Hvað verður ef þessi áætlun er samþykkt þar sem einungis er gert ráð fyrir því að farið sé frá mörkum Gullbringusýslu að Hveragerði? Hvað með aðra hluta leiðarinnar? Stendur það ekki áfram í þeirri áætlun sem nú er eða er verið að fella það úr gildi? Kannski má nefna það í framhjáhlaupinu sem hv. fyrri ræðumaður, Árni Þór Sigurðsson, nefndi þegar hann talaði um leiðina vestur um land, að í núgildandi áætlun er gert ráð fyrir að hafist verði handa um úrbætur frá Reykjavík og vestur í Borgarnes. Það er inni í núgildandi áætlun eins og ég skil málið. Þess vegna vildi ég fá skýringar á því hvað við erum í rauninni að samþykkja með þessari áætlun umfram það sem samþykkt var síðastliðið vor. Mér finnst afskaplega mikilvægt að við áttum okkur á því. Það má alla vega ekki vera þannig að við göngum aftur á bak í þessu máli.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að í viðauka sem þessum séu teknir ýmsir nýir valkostir, nýjar leiðir, nýjar hugmyndir og nýjar aðferðir í samgöngumálum. Þannig háttar til að á haustþinginu lagði ég ásamt 18 þingmönnum fram þingsályktunartillögu um uppbyggingu hálendisvegar um Kjöl. Mér er kunnugt um að eðli málsins samkvæmt fór sú þingsályktunartillaga til samgöngunefndar sem ég held að hafi harla lítið unnið með tillöguna. Aflað hefur verið umsagna sem ég hef skoðað en meira veit ég ekki til að gert hafi verið við þá tillögu sem gekk út á það að ríkisstjórninni væri falið að kanna undirbúning og kanna þessa vegarlagningu. Það er væntanlega hæstv. samgönguráðherra sem falið hefur verið að kanna málið en mér er spurn: Hvers vegna kemur ekki eitthvað um hugsanlegan Kjalveg í þessum viðauka eða á að láta það mál deyja drottni sínum? Það væri að sjálfsögðu eðlilegt að það kæmi eitthvað um slíkan undirbúning í þessari áætlun ef á annað borð er einhver vilji til þess. En ég nefni það aftur að tæplega 20 þingmenn samþykktu að þetta yrði skoðað. Ég hefði viljað sjá slíka skoðun í þessum viðauka, mér fyndist það eðlilegt og sjálfsagt og við ættum að standa þannig að því og það þyrfti að koma inn í þennan viðauka við samgönguáætlun í meðferð nefndarinnar. Ég mundi vilja leggja það til.

Ég hef þá ekki fleiri orð um þennan viðauka en vildi gjarnan fá að heyra hvert er sjónarmið hæstv. samgönguráðherra í þessu máli.