135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:52]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt mál sem hv. þm. Kjartan Ólafsson kom inn á um Kjalveg. Við viljum fara varlega í mörgu er lýtur að sambúð lands og þjóðar en þegar upp er staðið hljótum við að elska fólkið okkar meira en landið og þess vegna er mikilvægt að þar náist sátt á milli. Grundvöllurinn er að fólkið okkar geti búið í landinu við mannsæmandi skilyrði. Það er engin spurning að samgöngumálin eru eitt mikilvægasta mál nútímans, í sögu þjóðarinnar, að fylgja því eftir og tryggja þar umbætur svo um munar af miklum metnaði.

Kjalvegur er einn af þeim möguleikum sem mun stytta gríðarlega vegalengdina milli Norðurlands og Suðurlands, milli norðursvæðisins og norðausturlands og höfuðborgarsvæðisins. Það skiptir máli að stytta þessa leið ekki síst fyrir fólkið sem býr á landsbyggðinni og það á að hafa forgang í viðmiðuninni. Það mun þýða að akstursleiðin frá Norðurlandi til höfuðborgarsvæðisins verður undir þremur og hálfri klukkustund með nýjum og eðlilegum og aðlöguðum Kjalvegi eftir hagstæðustu leið um það svæði. Það hefur verið vegur um Kjalveg öldum saman og við verðum að fylgja tímanum, draga úr blæstri og hreyfingu þess vegarstæðis sem þar er og gera þar eðlilegan og aðgengilegan veg sem styttir leiðina milli landshluta, jafnar rétt þegnanna í landinu til að búa við eðlilegar aðstæður, til að sækja menningarsamkomur í Reykjavík til að mynda sem eru á kostnað ríkisins í tíma og ótíma.