135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

aðild starfsmanna við samruna félaga yfir landamæri.

533. mál
[16:14]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beinir til mín nokkrum spurningum sem snerta þetta mál. Ég skal reyna að svara þeim af bestu getu og ef eitthvað vantar upp á það þá skal ég sjá til þess að hv. þingmaður fái það sem upp á vantar í meðförum þingsins á þessu frumvarpi og í meðförum nefndarinnar.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að það hefði vissulega verið eðlilegra að þetta frumvarp yrði samferða frumvarpi um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög sem var samþykkt fyrir ári síðan og hefur tekið gildi og var flutt að frumkvæði viðskiptaráðuneytisins. En menn voru í eilitlum vandræðum með hvar ætti að staðsetja þau atriði sem varða starfsmennina og þátttökurétt þeirra í þessu. Rannsóknarsetri vinnuréttar og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst var fengið það úrlausnarefni og eftir því sem ég er upplýst um þá tók það bara þennan tíma að finna þessu stað. Það sem kemur fram í þessu frumvarpi varð niðurstaðan. Ég vona að það komi ekki að sök þó að vissulega hefði verið æskilegra að þessi mál hefðu fylgst að.

En ég vil taka undir með hv. þingmanni um það sem mér fannst gæta í orðum hennar, þ.e. að við erum langt á eftir öðrum þjóðum að því er varðar atvinnulýðræði og þátttökurétt starfsmanna í fyrirtækjum og stjórnun fyrirtækja. Það hefur verið áhugamál mitt lengi að tryggja starfsfólki okkar meiri rétt og að það sé unnið miklu skipulegar en gert hefur verið með atvinnulýðræði. Ég flutti fyrir nokkrum árum hér á Alþingi frumvarp þar að lútandi.

Ég get því alveg tekið undir með hv. þingmanni að það þarf svo sannarlega að tryggja miklu betur þátttökurétt starfsmanna og að koma hér á miklu öflugra atvinnulýðræði en það er nánast ekki neitt hér á landi. Ég get því alveg stutt þingmanninn í því að það yrði sett í gang einhver vinna í því máli.

Nú veit ég að vísu ekki um afstöðu ríkisstjórnarinnar til þess en ég dreg enga dul á það hér að mér finnst vanta mikið upp á atvinnulýðræði hér á landi.

Ég hélt satt að segja, virðulegi forseti, að ég væri í andsvörum en ég sé að ég kom hér í ræðu. En ég vona að ég hafi að einhverju leyti svarað spurningum hv. þingmanns.