135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[16:19]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2010.

Barnavernd heyrir undir félags- og tryggingamálaráðuneytið samkvæmt lögum um barnavernd, nr. 80/2002. Ráðuneytið ber ábyrgð á stefnumótun málaflokksins og skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum.

Með þessari þingsályktunartillögu má segja að brotið sé í blað því að þrátt fyrir ákvæði laganna frá 2002 er þetta í fyrsta sinn sem lögð er fram heildstæð framkvæmdaáætlun í þessum mikilvæga málaflokki. Samkvæmt lögum á að leggja slíka áætlun fram að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum, sem gekk ekki eftir. Vinna við þessa áætlun hófst fyrst í tíð þessarar ríkisstjórnar og hefur mikil vinna verið lögð í hana á undanförnum mánuðum.

Áætlunin er unnin af ráðuneytinu og Barnaverndarstofu sem saman skulu vinna að framkvæmd hennar með það að markmiði að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. Við gerð framkvæmdaáætlunarinnar var byggt á ákvæðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum og jafnframt tekið mið af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum barna til ársins 2011 sem samþykkt var á Alþingi í júní í fyrra.

Framkvæmdaáætlunin var unnin í víðtæku samráði við sveitarfélögin í landinu. Drög að henni voru send öllum sveitarstjórnum og barnaverndarnefndum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga til umsagnar. Einnig var haldið málþing um áætlunina þar sem efnt var til samráðs fulltrúa ríkisins, einstakra sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Meðal ábendinga sem fram komu var að í áætluninni skorti umfjöllun um fötluð börn og börn af erlendum uppruna og var tekið tillit til þeirra í lokagerð hennar.

Í umfjöllun um framkvæmdaáætlunina hafa sveitarfélögin lagt ríka áherslu á stuðning Barnaverndarstofu við barnaverndarnefndir um land allt. Þetta er sannarlega mikilvægt enda rík áhersla lögð á þetta hlutverk Barnaverndarstofu í 7. gr. barnaverndarlaga. Um þetta er einnig fjallað í athugasemdum við þingsályktunartillöguna þar sem fram kemur að áherslur Barnaverndarstofu og ráðuneytisins muni nú og um næstu framtíð beinast að því að innleiða og þróa ný úrræði í barnaverndarmálum, meta árangur úrræða í barnavernd, styrkja starf Barnaverndarstofu og efla barnavernd á vegum sveitarfélaganna.

Athyglisverðar upplýsingar koma fram þegar maður skoðar fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda, hve mikið þeim hefur fjölgað á umliðnum árum. Tilkynningar til barnaverndarnefnda voru 2.728 árið 2000 en sex árum síðar, árið 2006, voru tilkynningarnar orðnar 6.874. Tilkynningar fóru yfir 8 þús. árið 2007 þannig að mikið verk er að vinna í barnavernd og brýnt að hafa leiðsögn eins og barnaverndaráætlun þá sem ég mæli nú fyrir.

Hlutverk sveitarfélaga á sviði barnaverndar er stórt og verkefnin viðamikil. Í lögum um barnavernd er kveðið á um að sveitarstjórnir marki sér stefnu og geri framkvæmdaáætlun fyrir hvert kjörtímabil á sviði barnaverndar innan sveitarfélagsins. Ég bind miklar vonir við að framkvæmdaáætlunin sem hér er kynnt verði sveitarstjórnum hvatning og stuðningur við gerð slíkra áætlana og mun jafnframt ganga eftir því að þau uppfylli framangreint skilyrði laganna.

Barnavernd er stór og mikilvægur málaflokkur sem snýst um vandasöm og viðkvæm mál. Mikilvægi þess að vandað sé til verka verður því aldrei ofmetið. Í barnavernd er fjallað um hagsmuni, velferð og framtíð barna og fjölskyldna þeirra. Barnaverndarlög leggja ríkar skyldur á þá sem vinna að barnaverndarmálum og það sem stendur ávallt efst í barnaverndarstarfi er sú fortakslausa krafa að hagsmunir barns séu ávallt hafðir í fyrirrúmi og gilda þar engar undantekningar. Eðli þessara mála er slíkt að þau krefjast mikils af þeim sem að þeim vinna og því er fagleg þekking þeirra, menntun, kunnátta og færni, hornsteinninn að farsælu starfi.

Hæstv. forseti. Ég mun nú fara nokkrum orðum um helstu efnisatriði þeirrar framkvæmdaáætlunar í barnaverndarmálum sem hér liggur fyrir, þótt hún sé vissulega viðameiri en svo að hægt sé að gera öllum þáttum hennar fullnægjandi skil.

Áætlunin skiptist í þrjá meginkafla með skilgreindum markmiðum og verkefnum. Verkefni eru tímasett, gerð er grein fyrir framkvæmd þeirra og áætluðum kostnaði og jafnframt er skilgreint hvernig mat skuli lagt á árangur. Í fyrsta kafla er fjallað um aðgerðir til að efla barnaverndarstarf á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins, í öðrum kafla um aðgerðir til að efla barnaverndarstarf á vegum Barnaverndarstofu og í þriðja kaflanum er fjallað um aðgerðir til að efla þjónustu og verklag á þessu sviði.

Áætlaður kostnaður vegna verkefna sem kveðið er á um í framkvæmdaáætluninni er um 35 millj. kr. á ári og mun ráðuneytið taka tillit til þess kostnaðar í tillögum sínum vegna fjárlagagerðar ársins 2009. Það skal tekið fram varðandi þessar 35 millj. kr. að þá er undanskilið viðamikið verkefni um foreldrafærniþjálfun, en það verður unnið í samráði við sveitarfélög og önnur ráðuneyti og er gert ráð fyrir að kostnaður vegna þess muni skiptast á marga aðila.

Meginmarkmið þess hluta áætlunarinnar sem snýr að ráðuneytinu felast einkum í því að ráðuneytið eigi frumkvæði að þróun löggjafar á sviði barnaverndar. Í því skyni er miðað við að ráðuneytið meti reglulega framkvæmd barnaverndarlöggjafar, sérstaklega með hliðsjón af nýjungum og breytingum í barnaverndarstarfi. Einnig er lögð áhersla á hlutverk ráðuneytisins í því að tryggja samráð og samvinnu við önnur ráðuneyti sem sinna málefnum barna. Meðal mikilvægra verkefna ráðuneytisins er að efla og þróa samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin um barnaverndarstarf. Þá skal ráðuneytið eiga frumkvæði að því að fram fari mat á álagi í barnaverndarstarfi og endurmat á starfsmannaþörf sveitarfélaganna í málaflokkinum.

Meginmarkmið framkvæmdaáætlunarinnar sem snúa að Barnaverndarstofu eru í fjórum liðum. Í fyrsta lagi að efla barnaverndarstarf á hennar vegum með því að greina úrlausnarefni á sviðinu, fylgjast með þróun málaflokksins, gera tillögur um endurbætur við félags- og tryggingamálaráðuneytið og taka þátt í framkvæmd þeirra. Í öðru lagi að efla þjónustu Barnaverndarstofu þannig að hún verði markvissari, aðgengilegri og skjótari og ávallt í samræmi við þarfir viðskiptavina á hverjum tíma. Þetta á við um ráðgjöf, fræðslu og eftirlit og rekstur heimila og stofnana á vegum stofnunarinnar. Áhersla er lögð á að jafnræði ríki gagnvart þeim sem eiga samskipti við stofnunina. Í þriðja lagi er það markmið að bæta hæfni, getu og nýtingu starfsfólks Barnaverndarstofu og þeirra sem starfa á hennar vegum.

Virðulegi forseti. Ég vil geta sérstaklega um nokkur verkefni í framkvæmdaáætluninni sem teljast til nýmæla á þessu sviði. Árið 2005 hófst samstarf 32 Evrópuríkja við þróun gæðastaðla um umönnun barna í fóstri, jafnt á stofnunum eða annarri vist utan heimilis. Í september 2007 hófst vinna við þróun íslenskra gæðastaðla sem byggist á fyrrnefndu Evrópusamstarfi. Þessi vinna er langt komin og gert ráð fyrir að markviss kynning gæðastaðlanna fyrir starfsfólk meðferðarheimila og barnaverndarnefnda geti hafist í sumar. Þá vil ég nefna áætlanagerð sem nú er unnið að á Barnaverndarstofu um fyrirkomulag á markvissu eftirliti með vistun barna á meðferðarheimilum. Þessi áætlun á að liggja fyrir í lok ársins. Þá er gert ráð fyrir að áætlun um markvisst eftirlit með börnum sem vistast í öðrum úrræðum utan heimilis liggi fyrir í árslok 2009.

Þessi tvö verkefni um gæðastaðla vegna umönnunar barna í fóstri og sömuleiðis verkefni um skipulegt og markvisst eftirlit með þessum úrræðum tel ég einstaklega mikilvæg. Sorgleg dæmi úr fortíðinni hafa sýnt okkur að faglegar kröfur til vistunar- og meðferðarúrræða þurfa að vera nákvæmar og skýrar. Sömuleiðis verður eftirlit með þessum úrræðum að vera í föstum skorðum og fela í sér faglegt aðhald og faglegan stuðning við þá sem sinna því vandasama verkefni að fóstra börn annarra, annast þau og veita þeim meðferð.

Í framkvæmdaáætluninni sem hér er til umfjöllunar eru nokkur verkefni sem fela í sér mat á árangri ýmissa úrræða. Eitt þeirra er mat á árangri meðferðarheimila. Ráðist verður í slíkt mat á einum til tveimur heimilum þar sem meðal annars verður safnað upplýsingum um viðhorf vistbarna og foreldra til meðferðarinnar og árangurs hennar.

Kynferðisbrot gegn börnum eru meðal erfiðustu og vandmeðförnustu mála sem koma til kasta þeirra sem vinna við barnavernd. Undanfarin ár hefur Barnahús gegnt mikilvægu hlutverki í þessum málum en í haust eru tíu ár liðin frá því að starfsemi hófst í Barnahúsi. Meðal verkefna á framkvæmdaáætlun er að meta árangur starfseminnar sem þar fer fram. Um er að ræða heildarmat á starfinu, áhrifum þess á rannsókn kynferðisbrota og meðferð þolenda.

Annað verkefni tengt Barnahúsi er rannsóknarverkefni þar sem rannsakaður er framburður barna sem koma í Barnahús vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að skoða hvaða atriði í framburði barna leiða til opinberrar ákæru og dóms fyrir kynferðisbrot. Skráningu gagna vegna þessarar rannsóknar er þegar lokið og er stefnt að því að skýrsla um niðurstöður hennar verði tilbúin á næstu vikum.

Á síðustu árum hefur orðið umtalsverð fjölgun á tilkynningum til barnaverndarnefnda sem bendir meðal annars til aukins álags á starfsfólk í barnavernd. Samkvæmt upplýsingum sem Barnaverndarstofa hefur aflað er mikill munur milli barnaverndarnefnda á því hve margar tilkynningar leiða til nánari könnunar og í sumum tilvikum er aðeins lítill hluti tilkynninga kannaður frekar. Brýnt er að gera athugun á eðli og umfangi tilkynninga og hlutfalli þeirra sem leiða til könnunar máls hjá barnaverndarnefndum. Í framkvæmdaáætluninni er gert ráð fyrir samstarfi um þetta verkefni við Háskóla Íslands eða Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd og mun áætlun um verkefnið liggja fyrir í byrjun næsta árs.

Að lokum vil ég nefna sérstaklega ný meðferðarúrræði sem ég bind miklar vonir við og gerð eru nokkuð ítarleg skil í áætluninni. Eitt þeirra er svonefnd fjölþáttameðferð (MST = Multisystematic Therapy) sem felst í því að glímt er við hegðunarraskanir unglinga í þeirra venjubundna umhverfi, þannig að meðferð er veitt án þess að taka þá út af heimili sínu.

Margar aðferðir í meðferð utan stofnana hafa verið þróaðar, ekki síst í Bandaríkjunum. Fjölþáttameðferðin er hins vegar sú sem mesta athygli hefur vakið jafnt í Bandaríkjunum og Evrópu. Þess má geta að átta ár eru síðan Norðmenn ákváðu að innleiða þetta meðferðarform á landsvísu og Svíar og Danir hafa siglt í kjölfarið.

Rannsóknir á árangri fjölþáttameðferðar hafa sýnt umtalsvert betri langtímaárangur en hefðbundin stofnanameðferð og reynsla annarra þjóða af aðferðinni gefur tilefni til að endurskoða þá stefnu sem fylgt hefur verið í meðferðarmálum barna og unglinga hér á landi. Barnaverndarstofa mun stýra þessu verkefni og er gert ráð fyrir að tvö meðferðarteymi geti hafið meðferð af þessu tagi í haust. Gert hefur verið ráð fyrir fjármagni til þess. Þessi teymi munu þjónusta barnaverndarnefndir á Suðvesturlandi og Norðurlandi og er áætlað að unnt verði að bjóða meðferðina allt að 90 fjölskyldum á ári.

Annað verkefnið er foreldrafærniþjálfun að erlendri fyrirmynd þar sem foreldrum er boðin uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni. Áhersla er einkum lögð á fræðslu og ráðgjöf fyrir foreldra fyrsta barns, foreldra barna á unglingsaldri og foreldra barna með sérþarfir. Mikið þróunarstarf hefur verið unnið á þessu sviði hjá Hafnarfjarðarbæ en erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á góðan árangur þessarar þjónustu. Barnaverndarstofa mun í samvinnu við fræðslusvið Hafnarfjarðarbæjar gera áætlun um innleiðingu þessarar aðferðar á landsvísu, en stefnt er að því að árið 2010 standi foreldrafærniþjálfun til boða foreldrum um allt land.

Loks vil ég nefna áframhaldandi þróun Barnaverndarstofu á meðferð fyrir unga gerendur í kynferðisbrotamálum. Það liggur fyrir að allnokkur fjöldi gerenda í kynferðisbrotamálum gegn börnum er undir 18 ára aldri. Einnig hafa rannsóknir leitt í ljós að yfir helmingur fullorðinna kynferðisbrotamanna hefur feril sinn á unglingsaldri. Samkvæmt samningi Evrópuráðsins um vernd gegn kynferðislegri misbeitingu, sem Ísland á aðild að, ber að bregðast við þessum vanda og veita viðeigandi aðstoð. Nauðsynlegt er að bregðast við kynferðisafbrotum sem framin eru af börnum og unglingum á markvissan og faglegan hátt, bæði í ljósi hagsmuna hinna ungu gerenda en ekki síður til þess að fækka þessum afbrotum. Barnaverndarstofa mun áfram þróa meðferð fyrir unga gerendur kynferðisbrota á Stuðlum og á meðferðarheimilum og jafnframt undirbúa meðferð utan stofnana í samvinnu við sérfræðinga.

Ég hef fyrr í ræðu minni getið þess að hlutverk sveitarfélaga á sviði barnaverndar er afar mikilvægt. Þar er nærþjónustan við íbúana, þar ganga börnin í leikskóla og grunnskóla, eru í íþrótta- og tómstundastarfi, þar sækja börn og foreldrar þeirra þjónustu heilsugæslustöðva og félagsþjónustu og svo mætti áfram telja. Þegar grunur vaknar um að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni, ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í hættu er það mjög oft á þessum vettvangi. Því er afar mikilvægt að barnaverndaryfirvöld sveitarfélaganna séu árvökul og iðin við að uppfræða þá sem í starfi sínu sinna börnum og minna á tilkynningarskyldu í barnaverndarmálum sem getið er um í lögum. Barnaverndarstofa gegnir jafnframt þýðingarmiklu hlutverki, ekki síst vegna lögbundinnar skyldu sinnar til sinna leiðbeiningum um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga ásamt fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu.

Virðulegi forseti. Með þessum orðum hef ég mælt fyrir þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til sveitarstjórnarkosninga árið 2010. Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og til hv. félags- og tryggingamálanefndar.