135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[16:34]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Hér mælir hæstv. félagsmálaráðherra fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2010. Það var afar ánægjuleg lesning og fyrirætlanirnar eru góðar svo langt sem þær ná. Fyrirheitin eru fögur en þau eru flest hver orðin nokkuð lúin. Vonandi tekst hæstv. nýjum félagsmálaráðherra betur upp í þessum efnum en fyrirrennurum hennar í sæti félagsmálaráðherra síðustu kjörtímabil.

Ég hefði kosið að sjá að upplýst væri um það í þessari umræðu hvaða tillögur hæstv. ráðherra hyggst gera og er að gera nú við smíði fjárlaga fyrir árið 2009. Það er mjög mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu. Ef þessi þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun á að ná fram að ganga, sem ég vona einlæglega að geri, þá kostar það töluvert mikla peninga, verulega fjármuni. Þessum orðum verða að fylgja fjármunir, það er algerlega ljóst.

Ég vil aðeins víkja að einum þætti þeirra vandamála sem hér blasa við en hann varðar börn og ungmenni með geðraskanir. Ég hef bæði sem lögmaður og í einkalífi umgengist börn og ungmenni sem strítt hafa við lesblindu, ofvirkni, athyglisbrest og aðrar geðraskanir. Í skýrslum kemur fram að 2–5% barna úr hverjum árgangi eigi við alvarlegar hegðunar- eða geðraskanir að stríða og hafi þörf fyrir sérhæfða og öfluga þjónustu í skóla- og heilbrigðiskerfum, 2–5% barna sem fæðast í hverjum árgangi. Með öðrum orðum má reikna með því að í hverjum árgangi séu að lágmarki 80–100 börn og upp í 215 börn sem eiga við þessa erfiðleika að stríða. Það þýðir að í þjóðfélaginu í dag eru um eða yfir 2.000 börn fram að 16 ára aldri eða aðeins lengur sem glíma við þessi vandamál. Hér er átt við þann hóp barna sem á við alvarlegustu vandamálin að glíma. Jafnvel bestu heimili og bestu foreldrar ráða ekki við ástandið, jafnvel girðing fjölskyldu, góðrar móður, góðs föður, vina og ættmenna nægir ekki til að hjálpa. Það þarf samfélagshjálp, það þarf öryggisnet í kringum þessi börn.

Í skólakerfinu áður fyrr voru þessi börn kölluð „heimsku börnin“ sem hrökkluðust út úr því vegna vanrækslu. Flest hver þeirra höfðu markverða hæfileika á öðrum sviðum, málarahæfileika, listhæfileika og fjöldann allan af hæfileikum sem ekki voru ræktaðir. Þessi stóri hópur barna er í áhættuhópi. Það er líklegra, og reyndar mjög líklegt, að mörg þessara barna lendi í alvarlegum erfiðleikum. Þetta er hópurinn sem er í verulegri áhættu að lenda í fíkniefnum og afbrotum og ýmis konar sálarháska fljótlega eftir að þau ná kynþroska eða jafnvel fyrr. Þessi vandamál eru vissulega greind og ég hef rekist á að sama barnið hefur verið greint með þessi vandamál jafnvel fimm sinnum frá 7 til 14 ára aldurs alltaf með þeim niðurlagsorðum greiningarinnar að það þurfi úrræði, það þurfi að grípa til aðgerða, það þurfi að gera eitthvað án þess að nokkuð hafi gerst. Í niðurlagi svona greiningar kemur gjarnan fram að ef ekkert verði að gert muni barnið lenda í afbrotum, fíkniefnum og öðrum háska. Í þessum dæmum sem ég hef séð hefur þessi forspá eða greining því miður gengið eftir með dapurlegum afleiðingum.

Meðferðarúrræðin í dag eru vægast sagt af mjög skornum skammti. Meðferðarúrræðum hefur í raun stöðugt fækkað, ég tala t.d. um meðferðarheimili. Ég held að þau séu núna vel innan við 40, ef ég man rétt og hæstv. félagsmálaráðherra leiðréttir mig ef svo er ekki, en sum þessara barna þurfa slík úrræði. Ég er þó meðmæltari því að hjálpin fari fram á heimili barnsins með öryggisnet í kringum það sem tengist skóla, iðjuþjálfum, sálfræðingi og heimilislækni. Þetta eru allt þekktar staðreyndir og sérfræðingur og foreldrar hafa árum saman barist fyrir raunhæfum aðgerðum og fjárveitingum ríkisins til málaflokksins en komið að tómum kofa. Ég get ekki annað en hugsað þá hugsun vegna fjársveltis sem ríkir í málaflokknum, og spurt: Væri ekki nær að þeim milljörðum sem ríkisstjórnin veitir eða hyggst veita til greiningardeilda, leyniþjónustu og sérsveitarlögreglu, til fulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og til varnarmálaskrifstofu, væri varið til barna með alvarlegar geðraskanir? Væri það ekki nær? Stafar þjóðfélagi okkar ekki hætta af þessum börnum, að þau fari í hundana, eins og það er orðað. Viljum við það? Nei, auðvitað ekki — með tilheyrandi tjóni fyrir þjóðfélagið. Við viljum það alls ekki. Fyrir mig er ekki vandi að forgangsraða. Ég vil frekar bjarga þessum börnum en leggja að á annan milljarð í varnarmálaskrifstofu, það get ég sagt. Þessi vandamál eru margrannsökuð og fyrir liggja fjölmargar skýrslur þar að lútandi.

Ég leyfi mér að minna á afar ítarlega og greinargóða skýrslu frá árinu 2004 sem unnin var af Kristjáni Má Magnússyni sálfræðingi um málefni barna og ungmenna með geðraskanir. Ríkisstjórnin bað um þessa skýrslu en henni var bara stungið niður í skúffu. Það eru fjögur ár liðin síðan það var gert. Þessi skýrsla er raunsæ úttekt á þessum stórfellda vanda og þar er líka bent á virk úrræði til úrbóta. Þar voru m.a. þessar tillögur. Ég sé að sumt af þeim hefur ratað inn í þingsályktunartillöguna. Þar kemur m.a. fram að við breytingu á grunnskólalögum og reglugerð um sérfræðiþjónustu grunnskóla í tengslum við yfirfærslu grunnskóla til sveitarfélaga á árinu 1996, hafi dregið úr hlutverki sérfræðiþjónustu gagnvart börnum og ungmennum með geðraskanir. Það má lesa það úr þessari skýrslu að börn með þessar alvarlegi raskanir séu í „limbói“ þjónustuleysis vegna kerfisbreytinga og það er auðvitað með öllu óverjandi ástand. Ég segi það enn og aftur að þessi skýrsla hefur nánast legið í þagnargildi og fátæklegar tillögur ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og nýrrar ríkisstjórnar í síðustu fjárlögum gára ekki yfirborð þessa vanda. Ég segi það hér að það er okkur til skammar að ekki skuli tekið myndarlega til hendinni í þessum málaflokki og það er þyngra en tárum taki að vita til þess að börn með geðraskanir skuli þurfa að sæta því að vera í fleiri, fleiri mánuði, allt að 14 mánuði, á biðlista hjá BUGL. Vonandi er að rætast úr varðandi það ástand en það er jafnvel of langt að bíða í einn dag eftir úrræðum vegna þess að hver dagur í lífi barns, 13–14 ára, sem er í þessu ásigkomulagi er dagurinn sem það lendir hugsanlega í fíkniefnum. Það er aðeins tímaspurning hvenær mörg þeirra ánetjast fíkniefnum og afbrotum og lenda í annarri ógæfu. Gerist það eru þau háð samfélagsaðstoð til æviloka og slíkt barn getur kostað hundruð milljóna kr. til æviloka.

Ég minni líka á það að lokum að Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram ítarlega fjárlagatillögu við gerð síðustu fjárlaga um úrbætur sem allar voru felldar. En ég hvet og vona að hæstv. (Forseti hringir.) félagsmálaráðherra taki myndarlega til í hendinni í þessum málaflokki. Ekki veitir af.