135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[16:45]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum fram til næstu sveitarstjórnarkosninga. Hér kemur fram fjöldi atriða í framhaldi af aðgerðaáætluninni um málefni barna og ungmenna sem samþykkt var á sumarþingi sl. vor.

Það sem verður spennandi að fylgja henni eftir og leitast við að framkvæma á þessu kjörtímabili og bregðast við þeim atriðum sem hv. þm. Atli Gíslason nefndi áðan, þ.e. að reyna með einhverjum hætti að grípa mun fyrr inn í þau vandamál sem steðja að og við verðum vör við í skólum landsins, oft og tíðum meira að segja í leikskólum og reyna að samræma aðgerðir strax með viðkomandi fjölskyldum á þeirra heimavelli, innan heimilisins og í skólunum og beita til þess fjölþættum aðferðum.

Þarna hefur þekking aukist mjög á undanförnum árum, þegar hafa verið gerðar tilraunir með viðbrögð og aðgerðir og menn hafa stigið stór skref í foreldrafræðslu. Þessu þarf að fylgja eftir betur og prófa víðar og breiða út um landið allt þannig að skólar landsins geti beitt þessu úrræði og brugðist við eins fljótt og mögulegt er, því fyrr sem brugðist er við þeim mun meiri líkur eru á að árangur náist. Hér eru taldar upp margar leiðir sem mögulegar eru, ný meðferðarúrræði eins og t.d. fjölþáttameðferðin, fjölþáttameðferðarfóstur og foreldrafærniþjálfun og fleira mætti telja sem þegar er í gangi og við treystum á að verði reynt á kjörtímabilinu og auðvitað verða þá að fylgja peningar til þess að hægt verði að beita þessum aðferðum.

Eftir sem áður þarf í einhverjum tilfellum að grípa til fósturúrræða, þ.e. að fjarlægja börn af heimili tímabundið. Eftir alla þá umræðu sem farið hefur fram, m.a. hér í þinginu, er ljóst að í þeim efnum þarf að beita bæði nýjum aðferðum og öruggara eftirliti, betri eftirfylgni og klárari markmiðssetningu og allt þetta er boðað í þessum texta, aukið gæðaeftirlit og því ber að fagna.

Ég hlakka til að takast á við þetta frumvarp í félags- og tryggingamálanefnd og fagna því að það er fram komið og treysti á að við getum jafnvel bætt um enn betur og fylgt áfram þessari metnaðarfullu framkvæmdaáætlun.