135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[16:48]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram um þessa framkvæmdaáætlun og ég get út af fyrir sig tekið undir það sem fram kom hjá hv. þingmanni, Atla Gíslasyni, 7. þm. Suðurk., að það er ekki nóg að setja fram áætlanir, það þurfa að fylgja peningar og ekki síst eftirfylgni. Það þarf líka að vera áhugi fyrir hendi hjá þeim sem eiga að framkvæma þetta vegna þess að ef það eru gerðar framkvæmdaáætlanir sem liggja bara ofan í skúffu skila þær auðvitað engu. Það má vel vera, eins og hv. þingmaður sagði, að ýmislegt í þessari framkvæmdaáætlun sé ekki nýtt en engu að síður er þarna verið að gera tilraun til þess að setja fram fyrstu framkvæmdaáætlunina í barnaverndarmálum og ég held að a.m.k. sé þar stigið skref í viðleitni til þess að gera betur í þessum málaflokki.

Ég vil líka minna hv. þingmann á að ég held að það hafi aldrei á jafnstuttum tíma og þessi ríkisstjórn hefur verið að störfum verið sett jafnmikið fjármagn til málefna barna. Ég vil minna á að það var sett verulegt fjármagn til þess að stytta biðlista bæði á BUGL og Greiningarstöð ríkisins og sett fram metnaðarfull áætlun um að ná niður biðlistum þar. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þeir eru til skammar og við eigum að leggja metnað okkar í að stytta þessa biðlista og tæma. Að því er unnið og allar áætlanir sem hafa verið settar fram í þessu efni ganga eftir. Það voru settir, ég man ekki hvað það eru miklir fjármunir, en einhver hundruð milljóna voru sett í það að ganga á þessa biðlista. Í þessari áætlun er líka gert ráð fyrir fjármagni, 35 millj. kr. á ári, og það mun verða tekið tillit til þess í tillögum vegna fjárlagagerðar árið 2009. Þá er undanskilið það verkefni sem ég nefndi hér um foreldrafærniþjálfun en það er verkefni sem mun skiptast bæði á ríki og sveitarfélög.

Ég vil taka undir hvert einasta orð sem hv. þm. Atli Gíslason sagði um börn með ofvirkni og geðraskanir. Það er nokkuð sem ég hef orðið mjög vör við þessa fáu mánuði sem ég hef setið í ráðuneytinu, þ.e. hvað þetta er sívaxandi vandamál sem verður að taka á. Það hafa mjög margir foreldrar sem eiga börn með ofvirkni og geðraskanir komið á minn fund út af þessum vandamálum og það er alveg ljóst að þegar fleiri börn greinast, eins og á Greiningarstöð ríkisins og BUGL, þá er ekki nóg að greina börnin heldur þarf náttúrlega úrræði til þess að mæta þjónustu sem börnin þurfa á að halda í skólakerfinu, leikskólum og í félagslega kerfinu.

Þar liggur hinn stóri vandi, vegna þess að það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að þeir sem greinast með ADHD eða ofvirkni og geðraskanir falla í ákveðinn áhættuhóp. Þeim er hættara við að flosna upp úr skóla eða ánetjast fíkniefnavandanum og það er auðvitað mjög dýrt fyrir samfélagið ef það er látið gerast án þess að gerð sé tilraun til að koma til móts við þessi börn með þeirri þjónustu sem þau þurfa á að halda.

Þessa dagana, væntanlega nú á næstu tveimur vikum, mun nefnd sem hefur verið að störfum og hefur einmitt skoðað ADHD hópinn, skila mér niðurstöðum svo hægt verði að leita leiða til úrbóta og hvernig megi auka þjónustu við þann hóp. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er ekki bara að greina þessa hópa og skilgreina hvaða þjónustu þeir þurfa heldur er það þannig að í mörgum tilvikum er óljóst hvar ábyrgð sveitarfélaganna liggur í þjónustunni og hvar ábyrgð ríkisins liggur. Það er nokkuð sem ég vil vinda mér í með mínu fólki að skoða til þess að það verði ekki deiluefni á milli ríkis og sveitarfélaga sem allt of oft er, ekki bara í þessum málaflokki heldur fleirum, hver eigi að borga brúsann. Það hef ég séð allt of, allt of oft og það er nokkuð sem verður að fara í og meðan það er ekki klárt bitnar það einmitt á þessum börnum.

Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hv. þingmaður hóf um þetta mikilvæga mál. Ég er honum sammála í einu og öllu og ég hef haft verulegar áhyggjur af þeirri þróun sem verið hefur. Áður fyrr, fyrir 10, 15 árum þegar ég var að vinna í ráðuneytinu heyrðist varla um þessi mál en þau eru að koma í mjög vaxandi mæli upp núna og á því verður að taka.

Hv. þingmaður sagði að fyrirheitin væru orðin lúin en hann vildi gefa mér tækifæri til þess að sýna hvers ég væri megnug með ríkisstjórninni í þessu efni. Við skulum bara sjá hvað setur í því efni en ég fullvissa hv. þingmann um að ég hef fullan hug á því að fylgja þessum málum fast eftir og allt kemur þetta fram í þeirri aðgerðaáætlun sem var samþykkt á síðasta vorþingi, aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna. Að henni er verið að vinna mjög ákveðið í nefnd og í þingsályktunartillögunni kom fram að sú nefnd hefur það verkefni að fylgja eftir þeim tillögum sem þar koma fram til þess að bæta stöðu barna og ungmenna. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá fjórum eða fimm ráðuneytum ásamt sveitarfélögunum og ég vona sannarlega að við munum sjá árangur af þeirri aðgerðaáætlun eftir því sem líður á kjörtímabilið.