135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[16:58]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það vekur athygli mína að í þingsal hefur enginn úr Sjálfstæðisflokknum tekið þátt í þessari umræðu. Það er auðvitað sorglegt þegar hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir talar hér um mjög merkilegt og þarft mál að enginn úr Sjálfstæðisflokknum skuli veita henni liðsstyrk og tala um að það þurfi að gera eitthvað. Mér sýnist að í þessu máli eins og í mörgum öðrum verði erfitt hjá henni að fá peninga til þess að leysa þetta mál eins og þarf. Þetta er mikið mál og þetta er samstarfsverkefni skóla og sveitarfélaga, fjölskyldna viðkomandi aðila, barna sem þurfa að fá aðstoð og meiri aðstoð en önnur börn í skólakerfinu. Ég dreg ekki í efa að hæstv. ráðherra vill gera eins og hún getur og koma til móts við þetta og laga þetta, en ég óttast að áhugaleysi sjálfstæðismanna, sem eru helmingur ríkisstjórnarinnar, spegli það sem hæstv. ráðherra þarf að glíma við, þ.e. áhugaleysi Sjálfstæðisflokksins og því muni hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, eiga erfitt með að fá peninga eins og þarf í þetta verkefni.