135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:00]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess að hv. þingmaður hefur áhyggjur get ég sagt að reynsla mín af samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn að því er þennan málaflokk varðar er alveg ágæt. Ég vil minna hv. þingmann á að fyrsta verkefni þessarar ríkisstjórnar var að setja fram aðgerðaáætlun í málum barna og ungmenna. Það var mjög góð samstaða um það milli stjórnarflokkanna. Verulegir fjármunir voru settir í fyrstu aðgerðirnar sem áætlunin kvað á um, þ.e. að fara í átaksverkefni til að taka á biðlistunum bæði hjá Greiningarstöðinni og BUGL. Ég varð ekki vör við að Sjálfstæðisflokkurinn væri eitthvað að streðast á móti þessari áætlun sem við settum fram í barnaverndarmálum. Ég hef því a.m.k. ekki enn fundið fyrir öðru en að við séum samstiga í því að framfylgja þessari áætlun. Ég vil þó taka það fram hér, og ástæða er til að hafa áhyggjur af því, að settir eru miklu minni fjármunir til málefna barna hér á landi en t.d. á hinum Norðurlöndum. Þar þurfum við að taka okkur verulega á vegna þess að hverri krónu sem sett er í að bæta stöðu barna í samfélaginu, ekki síst barna sem þurfa á aðstoð að halda, er vel varið.

Það er afskaplega dýrt að missa börn út í neyslu á fíkniefnum eða að þau flosni upp úr skóla. Það er dýrt fyrir samfélagið og við eigum að vera okkur alveg fullmeðvituð um að hverri einustu krónu sem við setjum í þennan málaflokk er vel varið og mun skila sér margfalt aftur til samfélagsins.