135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:02]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil enn og aftur segja að það vantar miklu meiri peninga í þennan málaflokk. Hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir staðfestir það þegar hún segir að við leggjum minna fé til málefna barna almennt en önnur þjóðfélög sem við viljum bera okkur saman við. Það staðfestir það sem ég hélt fram áðan að áhugaleysi sjálfstæðismanna (ÓN: Hvaða rugl er þetta?) er mikið hvað þessa málaflokka varðar, enda er hér enginn sjálfstæðismaður til að verja og ræða þessi mál. (ÓN: Hvaða kjaftæði er þetta?) Það segir mikið þegar 24 þingmenn sjá sér ekki fært að mæta til að taka þátt í umræðu um þessi alvarlegu mál sem snúa að geðheilsu barna og yfir höfuð að málefnum barna. Þetta er það sem þeir hafa gert í gegnum tíðina, að halda niðri fjárveitingum til þessara málaflokka. Sjálfstæðismenn eru nú búnir að vera í ríkisstjórn í 20 ár og hafa ekkert lagt þessu lið. Það er fyrst núna að það örlar aðeins á vilja hjá hæstv. félagsmálaráðherra að kippa þessum málum í liðinn. Ég óttast þó að það verði áfram mjög erfitt að bæta úr í þessum málaflokki vegna afstöðu sjálfstæðismanna frekar en annarra í þinginu.