135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:14]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Grétari Mar fyrir að minna mig á dómsmálaráðherra í þessu sambandi, ekki batnar staðan þegar enn einn sjálfstæðismaðurinn bætist við. (ÓN: Er þetta planið sem þið eruð á?) Þetta er planið sem við erum á vegna þess að við erum að fjalla um hvað ræður fjárveitingum og áherslum í málefnum barna og unglinga. Við tínum til eina fjóra ráðherra, hv. þm. Ólöf Nordal, og fjögur ráðuneyti sem að þessu koma sem eru í höndum Sjálfstæðisflokks, þar á meðal fjármálaráðuneytið, og svo eitt sem er í höndum hins stjórnarflokksins og ég hef lýst yfir fullum stuðningi við á þessu stigi.

Ég tek eftir því að í þessari framkvæmdaáætlun er vikið sérstaklega að meðferðarúrræðum, annars vegar fyrir unga kynferðisbrotamenn og hins vegar fyrir unga brotamenn almennt. Það er ákaflega mikilvægt verkefni. Það er dapurlegt að þurfa að horfa upp á að ungmenni skuli þurfa að fara í fangelsi innan um harðsvíraða glæpamenn, jafnvel glæpagengi, og koma þaðan út kannski skaddaðri á sálinni en þeir fóru þar inn. En nú vænkast hagur Strympu, herra forseti. Það eru komnir ekki færri en tveir sjálfstæðisþingmenn í salinn þannig að það gæti verið að þeir tækju til máls og við gætum haldið þessari umræðu eitthvað áfram.