135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:33]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér skildist á hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að það væru smáaurar sem færu í félagsmálin í heild sinni þegar hann talaði um málaflokka ráðherrans. Hitt er annað mál að síðan breytti hann ræðu sinni og færði áhersluna á málefni barna.

Ég get tekið undir að auka megi fjármagnið sem fer í málefni barna. Og ég tek undir að það er auðvitað búið að bruðla of mikið í þessu þjóðfélagi. Það er hárrétt. Það er verst að ég er að mörgu leyti sammála þessum ágæta ræðumanni. Hann talaði til mín eins og við værum algerlega ósammála en ég get líka tekið undir að það megi örugglega skoða hversu dýr utanríkisþjónustan er, hvort við séum með of mörg sendiráð, hvort við ættum kannski vera með færri sendiráð og viðskiptaskrifstofur í stað sendiráða sums staðar.

Það hvort við erum með of marga eða of fáa sendiherra má allt saman ræða. Ég var alls ekki að útiloka þá umræðu ef hv. þingmaður skildi það þannig. Þótt mér sé ekkert allt of ljúft að þurfa að koma hér og taka undir margt sem hann sagði þá var margt af því af viti. Ég kem þess vegna upp og tek undir margt af því.

Varðandi öryggisráðið þá fara örugglega gríðarlega miklir fjármunir í þá umsókn en ég sé hins vegar ekki fyrir mér að þar verði aftur snúið úr því sem komið er. En hvort ég er endilega sammála því að sækja þar um og leggja verulega áherslu á það skal ósagt látið.