135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:43]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra auðvitað. Auðvitað er sjálfsagt að halda áfram rannsóknum og auka rannsóknir á aðstæðum barna. Spurningin er ekki um það en það vantar samt meiri peninga í þennan málaflokk. Það er sjálfsagt mál.

Það er dálítið sérkennilegt hjá þingmanninum, þegar búið er að svæla tvo þingmenn frá Sjálfstæðisflokknum til að taka þátt í umræðunni en þeir hafa ekki verið í umræðunni um þessi mál, um málefni barna, að reyna að verja það að þau hafi forgangsraðað rangt við gerð fjárlaga. Þau hafa sett peninga í annað en þetta og ég óttast, eins og ég hef sagt áður, að það vanti fjármagn í málefni barna. Það er ekkert flókið.

Ég óttast, þrátt fyrir að á vorþingi hafi verið samþykkt svokallað velferðarfrumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur sem var ekki með eyrnamerktum peningum, þ.e. engir peningar eyrnamerktir í nein ákveðin málefni … (Fél.- og trmrh.: Það er rangt.) Það er ekkert rangt, hv. þingmaður. Fjárveitingin kom í fjárlögum fyrir árið 2008 og þess vegna gagnrýnum við hvernig kökunni er skipt. Um það snýst málið. Við höfum komið inn á að það sé frekar valið að setja peninga í umsókn að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en að eyrnamerkja peninga í málefni barna. Bruðlið er á miklu fleiri sviðum. Ég talaði um öryggisráðið en ég talaði líka um sendiráðin og hitt og þetta bruðl.