135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[17:48]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Þróun undanfarinna ára hefur sýnt að Ísland er hluti af alþjóðasamfélaginu og bæði vinnumarkaður og mannlíf allt hefur tekið stórstígum breytingum í átt til fjölþjóðlegra samfélags. Hin fjölmenningarlegu áhrif á efnahagslega velsæld og grósku eru óumdeilanleg og við tökum þátt í alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki, hugmyndir og nýsköpun. Frjáls flutningur fólks, fjármagns og þjónustu hefur skapað áður óþekkt tækifæri. Velmegun og samkeppnisforskot Íslands til framtíðar ræðst meðal annars af því að hingað laðist hæfileikafólk og að sköpuð verði skilyrði til að fjölbreyttur mannauður nýtist til að efla og styrkja stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Í þessu felast ómæld tækifæri.

Án vinnuframlags innflytjenda stæði ýmis þjónusta, fiskverkun og byggingariðnaður höllum fæti. Um aldamótin voru erlendir ríkisborgarar 2,6% af mannfjöldanum hér á landi en nú eru þeir 6,8%, sem er umtalsverð aukning sem kallar á markvissar aðgerðir stjórnvalda. Sé litið til nágranna okkar hefur innflytjendum fjölgað mun meir hér á landi en í Danmörku og Svíþjóð á allra síðustu árum.

Fjöldi fullorðinna af erlendum uppruna hefur þrefaldast á þessum tíma úr rúmum 7 þúsund í tæplega 22 þúsund manns og fjöldi barnanna hefur ríflega tvöfaldast á sama tíma. Hér er því ekki einungis um erlenda starfsmenn að ræða heldur fjölskyldufólk sem sest hér að. Þetta skiptir miklu máli þegar hugað er að stefnumótun í málaflokknum. Enda einsetti ríkisstjórnin sér í stefnuyfirlýsingu sinni á síðastliðnu vori að samin yrði heildstæð framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda með það að markmiði að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Þrátt fyrir samdrátt í byggingariðnaðinum hefur lítið hægt á þróun á skráningum starfsfólks frá hinum nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins. Helstu breytingarnar eru að hlutfallslega fjölgar þeim sem ráðast til verslunar- og þjónustustarfa og erlendum starfsmönnum fækkar í byggingariðnaði, einkum á landsbyggðinni.

Íslenskt samfélag hefur alla burði til að vera í fararbroddi hvað varðar farsæla og gagnkvæma aðlögun okkar sem fyrir erum í landinu og nýrra íbúa af erlendum uppruna. Við njótum þeirrar sérstöðu að innflytjendur eru virkir þátttakendur í atvinnulífinu og leggja sína skatta og skyldur til samfélagsins. Það er markmið okkar að allir sem hér búa hafi jafna möguleika til þátttöku í því. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld og stofnanir, sveitarfélög, atvinnulíf, félagasamtök, landsmenn og innflytjendur sjálfir að taka höndum saman.

Ég fól innflytjendaráði að hafa verkstjórn um gerð framkvæmdaáætlunarinnar sem ég mæli hér fyrir en hún er byggð á tillögu innflytjendaráðs sem samþykkt var á fundi ráðsins í mars síðastliðnum. Áætlunin byggir öðrum þræði á stjórnarsáttmálanum og á samþykktri stefnu í málefnum innflytjenda frá janúar 2007. Enn fremur er byggt á dýrmætri reynslu sem myndast hefur meðal þeirra sem starfa á þessum vettvangi og á efni frá fjölsóttu, opnu málþingi innflytjendaráðs í janúar 2008. Við gerð áætlunarinnar voru öll ráðuneytin beðin um að fara yfir verkefni sem þau eða stofnanir þeirra sinna með tilliti til þess hvað megi betur fara og til hvaða aðgerða þurfi að stofna svo ná megi markmiðum ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum.

Rétt er að geta þess að margt hefur þegar verið gert og annað er í burðarliðnum. Má hér nefna umtalsverða aukningu fjármagns til íslenskukennslu frá og með 2007. Árið 2006 voru veittir styrkir til námskeiða fyrir þrjú þúsund nemendur en á árinu 2007 var fjármagn veitt fyrir tæplega sex þúsund nemendur um leið og kostnaður nemenda lækkaði verulega.

Einnig má nefna að fyrir Alþingi liggja nú lagafrumvörp sem fela í sér bætt vinnubrögð. Það eru frumvörp til breytinga á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem meðal annars hafa það markmið að tryggja að ríkisborgarar ríkja utan svæðisins sem hér dvelja og starfa hafi til þess tilskilin dvalar- og atvinnuleyfi. Er lagt til að veiting leyfanna verði einfölduð og samræmd. Einnig að skráningar verði bættar, meðal annars með því að ríkisborgurum ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins verði gert kleift að skrá sig hjá einum aðila við komuna til landsins.

Fjölmenningarsetrið hefur verið eflt á undanförnum missirum og má einkum rekja það til aukins fjármagns sem setrið hefur fengið vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar. Verkefnastjóri með aðsetur á Austfjörðum mun meðal annars vinna með sveitarfélögunum að gerð móttökuáætlana, halda þeim til haga og útbúa góðar fyrirmyndir fyrir sveitarfélögin.

Þá var á síðastliðnu ári gefinn út bæklingurinn Fyrstu skrefin sem hefur að geyma mikilvægar upplýsingar fyrir innflytjendur á níu erlendum tungumálum auk íslenskunnar sem birtist alltaf með. Bæklingurinn var hugsaður fyrst og fremst fyrir fólk sem var að taka sín fyrstu skref hér á landi, en reynslan hefur sýnt að margir aðrir þurfa á honum að halda. Hann hefur þegar verið endurútgefinn.

Í janúar síðastliðnum voru í fyrsta sinn veittir styrkir úr þróunarsjóði innflytjendamála. Umsóknir í sjóðinn voru fjölmargar og bera gróskunni og grasrótarstarfinu ákaflega gott vitni. Alls voru veittir 17 styrkir samtals að fjárhæð rúmar 9 milljónir króna.

Í athugasemdum með tillögu þessari er gerð grein fyrir öðrum breytingum undanfarinna ára og áhrifum þeirra á íslenskt samfélag, greint er frá helstu atriðum sem taka þarf afstöðu til við samningu frumvarpsins um aðlögun innflytjenda, fjallað er um samstarf ríkis og sveitarfélaga og um gildi þess að samfélagið í heild takist á við það verkefni.

Á Íslandi hafa félagasamtök, símenntunarmiðstöðvar, ýmsar sjálfseignarstofnanir og fyrirtæki þróað þjónustu við innflytjendur og samfélagið allt á sviði fjölmenningar og innflytjendamála. Þetta er auðlind sem rétt er að hvetja stjórnvöld, stofnanir, atvinnulíf og samfélagið til að nýta öllum til hagsbóta. Vefur og þjónusta Fjölmenningarseturs getur orðið bakhjarl í þessu starfi og miðar að því að allar helstu upplýsingar stjórnvalda séu aðgengilegar á einum stað til frjálsra nota. Þá gegnir þróunarsjóður innflytjendamála mikilvægu hlutverki við að styðja við þróun og nýsköpun á þessu sviði.

Ég mun nú gera nokkra grein fyrir einstökum atriðum framkvæmdaáætlunarinnar, en þingsályktunartillagan er byggð upp af 16 verkefnum stjórnvalda sem hvert um sig felur í sér eina eða fleiri aðgerðir.

Helstu þættir áætlunarinnar felast í að samin verði löggjöf um aðlögun innflytjenda sem ætlað er að kveða á um atriði sem almenn löggjöf á einstökum sviðum tekur ekki til, að upplýsingamiðlun til innflytjenda verði efld og bætt og að öflun upplýsinga um innflytjendamál verði fest í sessi, meðal annars tölulegar upplýsingar af ýmsu tagi. Þá eru tilgreindar fjölmargar aðgerðir á sviði einstakra ráðuneyta og stofnana sem ítarlega er fjallað um í fjórða kafla athugasemdanna.

Ég mun stofna starfshóp til að semja frumvarp um aðlögun innflytjenda sem mun taka til atriða er varða upplýsingamiðlun og upplýsingasöfnun, réttarstöðu innflytjenda, svo sem til túlkaþjónustu og um starfsemi stofnana, ráða og nefnda í málaflokknum sem önnur löggjöf fjallar ekki um. Samhliða legg ég áherslu á að þess verði ævinlega gætt að lagaákvæði sem eiga heima í almennri löggjöf verði þar en ekki í sérlöggjöf um aðlögun innflytjenda svo tryggt sé svo sem kostur er að ákvæði laga sem hafa áhrif á velferð innflytjenda fylgi meginstraumnum.

Stefnt er að því að tölulegar upplýsingar um innflytjendamál verði bættar og gagnagrunnur Hagstofunnar hafi að geyma upplýsingar um fyrstu og aðra kynslóð innflytjenda. Einnig verði gerðar reglubundnar kannanir bæði um aðstæður innflytjenda og viðhorf almennings til þeirra. Upplýsingamiðlun til innflytjenda er í brennidepli framkvæmdaáætlunarinnar og eru fjölmörg verkefni tilgreind, bæði þau sem ná til stjórnvalda í heild og einstök verkefni ráðuneyta eða stofnana. Má hér nefna uppbyggingu upplýsingavefs Fjölmenningarseturs á nokkrum tungumálum þar sem allar helstu upplýsingar um réttindi og skyldur innflytjenda í íslensku samfélagi verður að finna. Verður hann opnaður innan skamms.

Margar ríkisstofnanir hafa sett sér markmið sem birtast í áætluninni um aðgengi fólks af erlendum uppruna að upplýsingum, svo sem Tryggingastofnun ríkisins, Brunamálastofnun, Íbúðalánasjóður og Barnaverndarstofa.

Lagt er til að eftirlit með vinnustöðum verði bætt með það að markmiði að útlendingar á vinnumarkaði njóti sömu kjara og réttinda og aðrir. Þetta verkefni verður á ábyrgð Vinnumálastofnunar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Einnig verður eftirlit hert með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi í starfsgreinum þar sem fjöldi erlendra starfsmanna er mikill og ber Vinnueftirlit ríkisins ábyrgð á þessu verkefni.

Í framkvæmdaáætluninni eru fjölmörg verkefni á ábyrgð menntamálaráðuneytisins, enda hvílir rík skylda á skólakerfinu gagnvart menntun og aðlögun innflytjenda og við að búa æsku landsins undir líf og starf í fjölbreyttara samfélagi. Verkefni menntakerfisins eru einkum að veita tækifæri til íslenskunáms, styðja við samfélags- og fordómafræðslu, auðvelda nám í öðrum kennslugreinum, útvega viðeigandi námsgögn og mennta kennara til að mæta fjölbreyttari þörfum nemenda.

Fjallað er sérstaklega um að innflytjendur hafi sama aðgang og aðrir að félagsþjónustu sveitarfélaga, að fólki með fötlun sem er af erlendum uppruna sé kynnt sérhæfð þjónusta og að börn af erlendum uppruna njóti þeirrar verndar sem íslensk barnaverndarlöggjöf kveður á um. Einnig er lögð áhersla á að innflytjendur hafi sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og aðrir landsmenn og er brýnt að upplýsingar um heilbrigðiskerfið og sjúkratryggingar séu aðgengilegar á helstu tungumálum sem innflytjendur tala.

Ég vil að lokum nefna mikilvægi sveitarfélaganna í þessum efnum en þau veita nærþjónustu sem hefur mikil áhrif á daglegt líf fólks. Mér er kunnugt um að hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fer nú fram skipulögð vinna við mótun stefnu þess í innflytjendamálum og einstök sveitarfélög leggja sig fram um að taka vel á móti innflytjendum. Snertifletir við sveitarfélögin eru fjölmargir og er sérstaklega fjallað um móttöku nýrra íbúa í framkvæmdaáætluninni. Gert er ráð fyrir að Fjölmenningarsetur útbúi fyrirmynd að móttökuáætlun sem sveitarfélögin geta notað í þessu skyni.

Við gerð þessarar framkvæmdaáætlunar var leitast við að afla nákvæmra upplýsinga um kostnað. Heildarkostnaður liggur ekki fyrir en ljóst er þó að margar aðgerðir eru innan ramma fjárheimilda ráðuneyta og stofnana. Fyrirsjáanlegur kostnaður er víða tilgreindur og allar tillögur að aðgerðum hafa verið unnar í samráði við þá sem á þeim bera ábyrgð og er gert ráð fyrir að þeir tryggi fjármagn við innleiðingu þeirra.

Virðulegi forseti. Þessi framkvæmdaáætlun ber það með sér að vera sú fyrsta sem Alþingi samþykkir. Í henni er komið á framfæri ábendingum til fjölmargra aðila í samfélaginu sem gegna mikilvægu hlutverki við farsæla aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og þeir hvattir til dáða.

Hér hafa einungis nokkur verkefni verið nefnd. Ég vænti þess að áætlunin komist sem fyrst til framkvæmda en gert er ráð fyrir að hún verði endurskoðuð að tveimur árum liðnum í ljósi framvinduskýrslu og þá verði ný áætlun til fjögurra ára lögð fyrir Alþingi.

Ég legg til að að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til félags- og tryggingamálanefndar.