135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:12]
Hlusta

Paul Nikolov (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og vinnuhópi hennar fyrir þessa þingsályktunartillögu. Það er fagnaðarefni í sjálfu sér og jákvætt að tillagan kemur inn á svo margvísleg svið. Innflytjendamál eru ekki eitt tiltekið mál heldur snerta þau menntamál, heilbrigðismál, atvinnumál og fleira. Þess vegna finnst mér mikilvægt að benda á það sem liggur í framkvæmdinni. Ef við horfum á tillöguna í heild sinni sést hve mikil ábyrgð og mörg verkefni hvíla á fjölmenningarsetrum við að sjá um verkefnin. Það þýðir að peningar renna frá ríkissjóði til fjölmenningarseturs sem ríkisstofnunar. Í kjölfarið ráða svo fjölmenningarsetrin aðra aðila til að sjá um verkefnin. Þau ráða því hver fær hvað mikið og hver geri hvað. Þetta finnst mér frekar óskilvirk leið til að taka á þessum málum. Peningar tapast þegar einhver „milliliður“ stendur á milli umráðafjár og framkvæmdaraðila verkefna. Í ýmsum tilvikum í þessari þingsályktunartillögu renna peningar beint til þeirra sem sinna sjálfir verkefninu en það er samt gríðarlega mikið sem hvílir á fjölmenningarsetrum, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég mundi frekar mæla með því að þessir styrkir rynnu beint til þeirra sem sjá um verkefnin. Þannig væri þessum markmiðum í þingsályktunartillögunni náð með skilvirkari hætti án þess að tapa peningum í milliaðila.

Ég vil líka benda á að á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Öll ráðuneyti Stjórnarráðsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og fjölmargir aðrir hafa komið að vinnslu áætlunarinnar. Meðal annars var byggt á upplýsingum og tillögum sem fram komu á opnu málþingi innflytjendaráðs um málefni innflytjenda sem haldið var í janúar síðastliðnum.“ — Og mín var ánægjan að taka þátt í því.

Það var talað um grasrótina. Ég sjálfur er nýbúinn að tala við Alþjóðahúsið og fleiri aðila um þessi mál og mér var sagt m.a. að síðan fyrrnefnt málþing innflytjendaráðs var haldið í janúar síðastliðnum hafa þau ekki heyrt orð um þessa áætlun fyrr en hún birtist á netinu. Grasrótin var í raun á ýmsan hátt lokuð úti við vinnslu þessarar áætlunar.

Að leita samráðs hefur ákveðna merkingu og þýðingu, það þýðir einmitt samráð og samvinna. Það er ekki til fyrirmyndar að að búa til einhverja risastóra áætlun eins og þessa þingsályktunartillögu án þess að leita stöðugt eftir nánu samráði og samvinnu þeirra sem málið snýst um og þeirra sem mesta þekkingu hafa. Ég tel það bara sjálfsagt mál.

Ég vil fara yfir nokkur mál sem mér finnst afar mikilvæg í þingsályktunartillögunni og vöktu athygli mína.

Í II. kafla greinargerðarinnar undir fyrirsögninni Atvinnurekendur segir m.a., með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að atvinnurekendur mismuni ekki umsækjendum um atvinnu eftir uppruna og leitist við að styðja innflytjendur í starfi þannig að þeir njóti starfsþróunar á við aðra.“

Ég er auðvitað sammála þessu en spurning mín er um framkvæmdina, hvernig er hægt að tryggja að þetta sé framkvæmt?

Í IV. kafla greinargerðarinnar undir fyrirsögninni Bæklingurinn Fyrstu skrefin stendur m.a., með leyfi forseta:

„Reglubundin endurskoðun bæklings á níu erlendum tungumálum um fyrstu skrefin í íslensku samfélagi sem verður uppfærður eftir þörfum og dreift á helstu viðkomustöðum innflytjenda.“

Ég tel þetta frekar ónákvæma leið til að dreifa upplýsingum og ég mundi frekar mæla með að þessi bæklingur sé afhentur með atvinnu- og dvalarleyfi.

Í IV. kafla greinargerðarinnar undir fyrirsögninni Dvalar- og atvinnuleyfi, um einföldun skráningar ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, segir m.a.:

„Skráningarkerfi verði einfaldað þannig að útlendingar sem hafa heimild til að dvelja hér á landi án sérstakra dvalarleyfa skrái sig hjá einu stjórnvaldi við upphaf dvalar, sbr. tillögur í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum.“

Þetta er bara fínt mál en um markmið varðandi ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins segir:

„Með samvinnu stjórnvalda sem koma að málefnum útlendinga, meðal annars með gagnkvæmri upplýsingagjöf þeirra á milli, verði komið í veg fyrir að ríkisborgarar ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins geti án afskipta stjórnvalda dvalið og eftir atvikum starfað hér á landi án tilskilinna leyfa.“

Hér er áhersla lögð á eftirlit og þetta fjallar bara um það. Hver er einföldunin fyrir þetta fólk, fyrir þá sem eru utan EES-svæðisins?

Í IV. kafla undir fyrirsögninni Móttaka við búsetuflutning, um að sveitarfélögum verði auðveldað að koma á skipulögðu móttökuferli fyrir nýja íbúa, segir m.a., með leyfi forseta.:

„Útbúin verði fyrirmynd að móttökuáætlun sveitarfélags sem miðist að því að tryggja að innflytjendur verði sem allra fyrst virkir þátttakendur í samfélaginu“ o.s.frv.

Hvernig þá? Sjá markmiðið „Að gera sveitarfélögum kleift að setja sig í samband við aðflutta útlendinga“ en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Áætlað er að á næstu árum verði fyrirkomulag íbúaskráningar hjá Þjóðskrá tekið til endurskoðunar, þar á meðal tæknilegt umhverfi skrárinnar. Við þá endurskoðun verði búið svo um hnúta að sveitarfélög fái tilkynningar um alla útlendinga sem flytjast til þeirra.“

Spurningin er: Bera sveitarfélögin ábyrgð á því að kynna sér málin? Er þetta skylda eða eru þau bara hvött til þess?

Undir markmiðinu „Mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi verði einfaldað“, stendur m.a., með leyfi forseta:

„Mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi verði einfaldað og upplýsingar þar um þýddar á fleiri tungumál og gerðar aðgengilegar á vef ráðuneytisins sem og á vef Fjölmenningarseturs.“

Og einnig að mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi heilbrigðisstétta verði einfaldað. Spurning mín er: Hvernig? Fyrir mig er þetta spurning um framkvæmd. Hvernig á að viðurkenna menntun fólks erlendis frá?

Nú ætla ég að koma inn á mikilvægt mál fyrir mig a.m.k. Það er undir fyrirsögninni Atvinnumál og atvinnuþátttaka. Í lið 8.1, um um bætt eftirlit með vinnustöðum, er lýsingin sú, með leyfi forseta:

„Samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar um eftirlit með að gildandi lög og kjarasamningar séu virt og dvalar- og atvinnuleyfi í gildi í kjölfar samþykktar frumvarpa um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga.“

Í lið 8.2, um fræðslu til atvinnurekenda, er lýsingin sú, með leyfi forseta:

„Fræðsla og upplýsingamiðlun á netinu til atvinnurekenda um lög og reglur er gilda um ráðningu erlendra starfsmanna, hvort sem er á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga“ o.s.frv.

Við getum augljóslega gert ráð fyrir því að innlendir atvinnurekendur sé meðvitaðir um hvað stendur í lögum og kjarasamningum en hins vegar eru margir ef ekki flestir innflytjendur sem koma til landsins ekki vel upplýstir um atvinnuréttindi sín og skyldur. Samt er nákvæmlega ekkert í þingsályktunartillögunni sem skýrir hvernig ríkisstjórnin ætlar að (Forseti hringir.) upplýsa innflytjendur sem hingað koma um atvinnuréttindi sín og skyldur.