135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:25]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka félagsmálaráðherra fyrir yfirferð hennar á málinu í upphafi þar sem verið er að fjalla um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Innflytjendamál hafa verið að breytast mjög hratt hér á landi á undanförnum árum og eins og ráðherra kom inn á er kannski ein mesta breytingin sú að hingað er komið margt fjölskyldufólk til að setjast að og verður sífellt hærra hlutfall í stað þess að áður fyrr kom hingað fólk sem dvaldi stutt og yfirgaf síðan okkar ágæta land aftur. Það hefur komið fram hér hjá ýmsum hv. þingmönnum og það hefur víðar komið fram í umræðunni og er eitt af því sem ég man að hæstv. menntamálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn lagði mikla áherslu á í kosningabaráttunni, að auka þyrfti og bæta við íslenskukennslu sem er gríðarlega mikilvægt þegar tekið er á móti fólki sem kemur til að setjast hér að.

Þetta er ekki einfalt mál og það er í rauninni gríðarlega flókið fyrir skólakerfið. Bara í því sveitarfélagi, Kópavogi, þar sem ég þekki hvað best teljast í tugum löndin sem fólk kemur frá og er með börn í grunnskólum. Þetta er því orðið mjög flókið fyrir hið opinbera og um leið hlýtur það að vera mjög flókið fyrir fólkið líka að koma til að dvelja hér og búa í framandi landi eins og Ísland er fyrir margt af því. Þess vegna er mjög gott að í þessari aðgerðaáætlun er mikið lagt upp úr því að aðgangur að upplýsingum fyrir alla aðila sé góður og ekki bara að aðgangurinn sé góður heldur er líka mikið lagt upp úr því að miðlunin á upplýsingum verði markviss.

Ég vil líka undirstrika að mér finnst víða hafa verið unnið vel í þessum málaflokki nú þegar. Víða um land er mjög vel unnið í þessum málaflokki og fjölmenningarsetrin þar standa sig mjög vel. Mér finnst í rauninni aðdáunarvert hvernig staðið hefur verið að þessum málum vestur á fjörðum, á Ísafirði. Það er búið að byggja upp mikla og góða þekkingu fyrir vestan og ég held að þessi tillaga til þingsályktunar þurfi einmitt að taka mið af því starfi, og hún gerir það að mörgu leyti, sem nú þegar er unnið að en hún þarf líka að ýta undir það að hin frjálsu félagasamtök og aðilar sem vinna í þessum málaflokki fái hvatningu. En eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér kom inn á getur þetta leitt til þess að farið verði inn í ákveðna miðstýringu sem gæti hugsanlega minnkað hvatana fyrir þessa frjálsu aðila. Ég tek heils hugar undir það en ég held að það sé eitthvað sem við munum skoða sérstaklega í félagsmálanefnd þegar málið verður þar til meðferðar.

Einnig er komið inn á þróunarsjóðinn og honum er væntanlega ætlað að vera hvati fyrir þessa aðila en þróun og nýsköpun eru auðvitað mjög mikilvæg atriði í þessum málaflokki. En jafnframt því að rannsóknir séu mjög öflugar og mikilvægar þarf að gera þær mjög reglulega þannig að hægt sé að átta sig á hver þróunin er í þessum málum frá einum tíma til annars, frá einu ári til annars, því að þetta umhverfi breytist í rauninni mjög hratt og breytist kannski með misjöfnum hætti milli byggðarlaga, milli landshluta, milli sveitarfélaga og jafnvel innan höfuðborgarsvæðisins.

Ég get líka tekið undir að nauðsynlegt er að efla eftirlit á vinnustöðum, og það er kannski það sem mesta umræðan hefur verið um, að ekki sé gengið á rétt þess fólks sem hingað kemur og er kannski ekki komið almennilega inn í lög og reglur varðandi ýmsa þætti hér. Maður þekkir dæmi þess að brotið hafi verið mjög gróflega á fólki en hins vegar finnst mér þó að viðhorfið sé að breytast og það sé orðin almenn samstaða hér á landi um að líða ekki slíkt. Ábendingar samfélagsins eru auðvitað mjög nauðsynlegar í þeim efnum.

Það er mjög mikilvægt að líta til þeirra landa sem eru mörgum árum og áratugum á undan okkur í þessari þróun og kannski ekki síst til Norðurlandanna. Ég held að þá sé ekki síst mikilvægt að spyrja hvað þau hafi gert rangt því að þau viðurkenna alveg að þau hafi gert margt rangt og vildu hafa farið öðruvísi að en raun ber vitni. Það er afar mikilvægt að fá þær upplýsingar líka til að við föllum ekki í sömu gryfju.

Að öðru leyti fagna ég þessari þingsályktunartillögu um leið og ég tek heils hugar undir það að hún verður að vera hvati fyrir þá aðila sem núna vinna mjög gott starf og hafa unnið mjög gott starf, aðila sem flokkast undir frjálsa aðila, eins og Alþjóðahús, Rauði krossinn og slíkir aðilar. Að sjálfsögðu veit ég líka að það má gera betur víða og þessi aðgerðaáætlun er vissulega stórt skref í þeim efnum.