135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:50]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa lagt fram þingsályktun og þingmál um málefni innflytjenda þar sem reynt er að nálgast þessi viðfangsefni skipulega og á þann veg að innflytjendur geti aðlagast íslensku samfélagi og orðið okkur sem hér búum fyrir til sem mest gagns og við þeim.

Hún er að vísu nokkuð óvenjuleg þessi tillaga. Í henni er ekki mjög nákvæm útlistun á því sem gera á heldur er á henni stikkorðastíll og ljóst að nokkuð er óunnið í því að skýra betur þær línur sem ríkisstjórnin hyggst leggja í þessum málum. Þó má segja að þessi samsetning á stikkorðum í ályktuninni sé leiðarvísir um það hvert skuli haldið þótt innihaldið sé að nokkru leyti ekki alveg skýrt.

Ég held virðulegi forseti, að það sé eðlilegt að nálgast þessi viðfangsefni eins og menn hafa ákveðið að gera, þ.e. út frá því að við gengum í Evrópska efnahagssvæðið fyrir 14 árum. Þá var tekin um það pólitísk ákvörðun, ekki bara hér á landi heldur í öllum þeim ríkjum sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, að hætta að miða svæði þjóða við ríki heldur við efnahagssvæðið allt. Með öðrum orðum var hin pólitíska ákvörðun sú að hætta að gera greinarmun á þeim sem búa í tilteknu landi eftir uppruna og þjóðerni.

Ákveðið var að líta á alla sem búa á tilteknu landsvæði sem íbúa þess en ekki sem innlenda og útlendinga. Kjarninn í þeirri pólitísku ákvörðun er einmitt sá að hætta að aðgreina menn eftir þjóðerni, hætta að mismuna mönnum eftir uppruna þannig að menn hafi allir sama rétt og beri sömu skyldur sem starfa í sama þjóðfélagi. Það er hinn pólitíski veruleiki, hin pólitíska ákvörðun sem var tekin á sínum tíma. Það er eins gott að menn átti sig á því að þetta er sú stefna sem menn hafa markað. Þetta er sú stefna sem ég hygg að allir stjórnmálaflokkar fylgi.

Ég veit ekki til þess að nokkur stjórnmálaflokkur hafi þá stefnu að segja upp samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu. Þá afstöðu yrðu menn að hafa ef menn vildu ekki lengur samþykkja hina pólitísku stefnu sem felst í frjálsri för launþega um allt hið Evrópska efnahagssvæði. Þannig hljótum við að grundvalla alla stefnu okkar í málefnum útlendinga einmitt á þessari pólitísku niðurstöðu.

Sumir hafa þá afstöðu og áhuga á að Íslendingar eigi að gera meira en að vera aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði og eigi líka að ganga í Evrópusambandið eða íhuga hvort ekki sé rétt að sækja um aðild. Þeir sem hafa þá afstöðu hljóta að gera sér grein fyrir því að þar með væru þeir að festa enn frekar í sessi grundvallarþáttinn, þ.e. hina frjálsu för launþega um allt Evrópska efnahagssvæðið. Þá gengur ekki að búa til aðgreiningu á íbúum lands eftir þjóðernisuppruna, að meðhöndla þá með öðrum hætti gagnvart tryggingakerfi eða landamæraeftirliti og öðru slíku. Menn hafa ákveðið að um alla íbúa svæðisins gildi sömu reglur og þeir hafi sömu réttindi og sömu skyldur. Það hlýtur að vera grundvallaratriðið í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, að byggja á þessu.

Það er ástæða til að rifja þetta upp, m.a. vegna þess hversu oft fjölmiðlaumræða um málefni útlendinga er óstöðug og sveiflukennd. Nýlega var mikil umræða í fjölmiðlum um málefni Pólverja. Mér fannst að mörgu leyti sem fjölmiðlarnir misstu sig í þeirri umræðu. Þar kom einhvers staðar fullyrðing um að einstaklingur í frétt væri talinn glæpamaður. Undir eins komu kröfur fram og málflutningur í fjölmiðlum um að þessi einstaklingur ætti að fara úr úr landi. Af hverju er ekki búið að reka manninn út landi? var spurt.

En þegar að er gáð eru málsatvik þannig að hann hafði aldrei verið dæmdur fyrir glæp. Hann hafði ekki einu sinni verið ákærður fyrir glæp. Ef við hættum nú að hugsa um einstaklinginn sem Pólverja heldur sem Íslending og spyrjum: Hverjum dettur í hug á Íslandi að handtaka mann af því að einhver segir að hann sé glæpamaður? Engum. Auðvitað dettur engum það í hug. Ég held að íslenskir fjölmiðlar, sem fjölluðu svona mikið um þetta mál, mættu hugleiða hvernig þeir setja fram fréttir sínar í ljósi þessarar umræðu.

Útlendingar hér á landi eiga sama rétt og Íslendingar. Þeir bera sömu skyldur. Það er kjarni málsins. Þess vegna gerum við ekki svo fáránlegar kröfur að ætlast til þess af lögregluyfirvöldum að þau handtaki mann sem er hvorki dæmdur né ákærður.

Ég held að grundvallaratriði í allri stefnu í málefnum útlendinga sé að leggja sig fram um að þeir læri íslensku. Það er lykillinn að því að þeir komist inn í íslenskt samfélag á þeim forsendum sem þjóðin hefur búið til. Þannig geta þeir skilið siði, hefðir og venjur og tileinkað sér, og lagt fram sína siði og sínar venjur og útskýrt fyrir þeim sem tala málið. Tungumálið er lykillinn að stefnu okkar í málefnum útlendinga. Ég vil gera nokkuð ríkar kröfur til þess að útlendingar læri íslensku. Það þýðir líka að það verður að gera ríkar kröfur til ríkis og sveitarfélaga, að bjóða upp á möguleika fyrir útlendinga á að læra íslensku. Það fer saman.

Ég held að það sé númer eitt, gagnvart þeim sem vilja búa og starfa um lengri eða skemmri tíma, að gera þá kröfu til þeirra að þeir læri íslensku fljótt og vel. Ég held að það sé lykilatriði. Ég er að sumu leyti dálítið íhaldssamur í þessum efnum. Það fer óskaplega í taugarnar á mér að koma á veitingahús, á hótel eða á mannamót og þurfa að tala útlensku við þann sem afgreiðir mig. Mér finnst það ekki rétt. Mér finnst ég eiga rétt á að geta talað mitt tungumál á öllum helstu stöðum.

Þótt ég sé ekki með þessu að amast á neinn hátt við þeim ágætu útlendingum sem þjónað hafa mér á ýmsum stöðum að þá verð ég bara að segja: Ég vil að þeir læri íslensku og tali hana í starfi sínu. Ég held að það sé eðlileg krafa. Ég held að útlendingar sjálfir séu sammála því að svona eigi að gera, að það eigi að leggja áherslu á tungumálið. Það er lykillinn að því að ná fram aðlögun þeirra að íslensku samfélagi og samþættingu þess samfélags við menningu þeirra og siði eftir atvikum. Auðvitað er þetta eins og annað í mannlegum samskiptum, gagnkvæmt og gagnvirkt, virðulegi forseti.