135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[19:01]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég vil enn og aftur fagna þessari þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun varðandi innflytjendur. Ég fagna jafnframt starfsemi Fjölmenningarsetursins á Ísafirði og Alþjóðahúsinu í Reykjavík og ýmsu sem þessar stofnanir, ef stofnanir skulu kallast, hafa verið að gera. Þær eru á réttri braut. Það eru góð verk sem þeir vinna.

Útgáfa á bæklingum til innflytjenda er auðvitað spor í rétta átt og kynnir rétt þeirra og skyldur. Þróunarfélag innflytjenda er af því góða en það er auðvitað ýmislegt sem betur má fara. Við horfum upp á að börn innflytjenda eiga oft undir högg að sækja. Börn af annarri kynslóð, jafnvel þriðju kynslóð innflytjenda, lenda í því í skólakerfinu og í lífinu að verða fórnarlömb eineltis og í sumum tilfellum lenda þau í því að verða gerendur sem er kannski ekkert skárra nema síður sé. Það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að koma í veg fyrir að gerist. Við þurfum að leggja áherslu á að aðlaga innflytjendur að íslensku samfélagi og, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, setja þurfi meiri peninga í íslenskukennslu. Skólakerfið þarf líka að geta tekið á móti þessu fólki. Við í Frjálslynda flokknum lentum í því í síðustu kosningabaráttu fyrir ári síðan að tala um innflytjendamál. Það fór bersýnilega mjög í taugarnar á fólki í öðrum stjórnmálaflokkum á Íslandi að við skyldum voga okkur það. Við lögðum það til að fresta frjálsri för Búlgara og Rúmena til Íslands. Við lögðum til að settir yrðu meiri peningar í íslenskukennslu fyrir útlendinga, fyrir innflytjendur, og fengum bágt fyrir. En strax eftir kosningar tók ríkisstjórnin sig til og frestaði för Búlgara og Rúmena inn í landið okkar og setti 100 millj. í íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Þetta var auðvitað ágætt svo langt sem það náði. Ég veit ekki hvsort 100 millj. kr. duga en ég held að féð hefði þurft að vera meira. Það þarf að gera meiri kröfur til atvinnurekenda, til verkalýðsfélaganna og til ríkis og sveitarfélaga sem hafa verulegar tekjur af innflytjendum. Sveitarfélögin hafa útsvarstekjur, ríkissjóður hefur tekjuskatt og atvinnurekendur reyna að bjarga rekstrinum með því að fá erlent vinnuafl. Þeir fá ekki vinnuafl á Íslandi og hafa þurft á innflytjendum að halda, bæði tímabundið og eins fólki sem vill setjast hér að. Verkalýðsfélögin hafa svo félagsgjöld af innflytjendum.

Það væri ekkert óeðlilegt að sú krafa væri gerð til vinnumarkaðarins og ríkis og sveitarfélaga að þau stæðu betur að því að aðlaga fólk, sem vill setjast hér að sérstaklega, að íslensku samfélagi. Það er kannski öðruvísi þegar fólk kemur hingað til að dveljast í stuttan tíma, í þrjá mánuði, sex mánuði eða eitthvað þess háttar. Það er ljóst að ríkið getur ekki sett lög um að innflytjendur skili læknisvottorði eða sakavottorði um leið og þeir koma inn í landið en atvinnurekendur gætu hugsanlega gert þá kröfu. Sú krafa er auðvitað gerð á bæði Íslendinga og útlendinga sem vinna í matvælavinnslu, hvort sem það er í fiskvinnslu eða í kjötvinnslu, að þeir sýni læknisvottorð en erfiðara er að krefja þá um sakavottorð.

Þegar frjálst flæði byrjaði 1. maí 2006 þá segja atvinnurekendur mér margir hverjir að fólkið hafi breyst, að hingað hafi komið öðruvísi fólk eftir 1. maí en fólkið sem flutti til Íslands fyrir þann tíma. Þrátt fyrir að menn hafi haft passlega mikið álit á þessum svokölluðu atvinnumiðlunum þá voru atvinnurekendur að leita eftir samviskusömu fólki, duglegu fólki sem vildi vinna mikið. Eftir 1. maí 2006 breyttist þetta að töluverðum hluta. Þá fór að koma meira af fólki sem ekki var búið að fara í gegnum síu eins og það gerir hjá atvinnumiðlununum og þar af leiðandi var misjafn sauður í mörgu fé. Þetta var dálítið neyðarlegt en menn fögnuðu því að hér væri komið frjálst flæði og Íslendingar gætu farið út um allan heim og unnið. Það er auðvitað alveg rétt. En hverjir fóru og hverjir gátu nýtt sér þetta? Það var yfirleitt fólk með mikla menntun, jafnvel sérþekkingu á ákveðnum sviðum. Það hafði góða möguleika á að vinna á Evrópska efnahagssvæðinu. Láglaunafólkið á Íslandi, þ.e. verkamenn og jafnvel iðnaðarmenn, fékk mikla samkeppni frá því fólki sem kom inn í landið til að finna betri lífskjör en það hafði í sínu heimalandi, það er ekkert óeðlilegt. Það er með fólkið eins og þorskinn, það fer þar sem ætíð er og lifibrauðið er betra, passlegur hiti og fæða. Sumir félagar mínir í þinginu segja að ég geti ekki haldið ræðu nema að koma þorskinum að. Það er auðvitað rangt. Ég get það alveg en stundum leyfir maður sér að koma honum að svona óvænt. Þetta eru auðvitað neikvæðir fylgikvillar þessarar nauðsynjar. Við þurfum nauðsynlega á innflytjendum að halda víða í samfélaginu. Við getum ekki mannað sum störf með Íslendingum. Þess vegna er það dýrmætt fyrir okkur að fá þetta fólk inn í landið til að manna fiskvinnslur og ýmis fyrirtæki.

Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu auðveldar för allra þeirra sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu. En við þurfum kannski að hafa meiri áhyggjur af nýjum löndum sem gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég óttast satt að segja meira þegar þjóðir eins og Tyrkir eru orðnar aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu þar sem mjög ólík menning og trúarbrögð eru. Ég er ekki bara að tala um það af fenginni reynslu frá frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum og Þýskalandi og víðar. Þar hafa vandamálin fyrst byrjað þegar fólk sem er með mjög ólík trúarbrögð og ólíka menningu flyst þangað.

Það er fagnaðarefni að fá þessa framkvæmdaáætlun frá félags- og tryggingamálaráðherra og ég vona að þetta verði til þess að færa okkur fram á við og gera betur í þessum málum heldur en við höfum gert. Ég vona jafnframt að við náum að koma í veg fyrir ýmis vandamál sem þessu gætu fylgt.